Maðurinn sem lést í skotbardaga við lögregluna í Árbæ í morgun hefur áður komist í kast við lögin, bæði á Íslandi og í Noregi. Hann var til að mynda ákærður fyrir að beina skammbyssu að norskum lögreglumanni árið 1985.
Greint var frá ákærunni í dagblaðinu Tímanum á sínum tíma en þá var maðurinn rétt rúmlega þrítugur. Hann var ákærður fyrir tilraun til manndráps, vörslur fíkniefna og innbrot og þjófnaði í Osló.
Maðurinn var staðinn að innbroti og þegar lögreglumaður kom að honum dró hann upp sjálfvirka skammbyssu og beindi henni að lögreglumanninum.
Þá sat hann um tíma í gæsluvarðhaldi á Íslandi snemma á níunda áratugnum vegna afbrota.
Samkvæmt heimildum mbl.is var maðurinn andlega vanheill og hafði lögregla verið kölluð að heimili hans nokkrum sinnum á undanförnum mánuðum vegna ónæðis af hans völdum.
Ekki er unnt að greina frá nafni hans að svo stöddu.