Skotið að lögreglu í Árbænum

Skotum hefur verið hleypt af í fjölbýlishúsi í Árbæjarhverfi í Reykjavík sem lögreglan hefur setið um frá því snemma í morgun. Blaðamaður mbl.is var að ræða við íbúa í húsinu er skothríð hófst. Ljósmyndari mbl.is sem er í nágrenninu segist hafa heyrt marga skothvelli. Íbúar sem mbl.is hefur rætt við í morgun segja að lögreglan hafi beðið þá að halda sig innandyra og koma ekki út á svalir. Sjúkrabíll með blikkandi ljós fór kl. 6.45 inn á svæðið sem lögreglan hefur lokað.

Samkvæmt heimildum mbl.is skaut maðurinn sem setið er um einnig í átt að lögreglu fyrr í morgun er hún kom á vettvang. Íbúi sem mbl.is ræddi við segir að hann hafi þá heyrt háan hvell og haldið að ekið hefði verið á bíl. Hann fór út á svalir og sá þá tvo lögreglumenn koma hlaupandi, opna skottið á lögreglubílnum og skýla sér bak við það. Honum hafi veið skipað að halda sig inni. Íbúinn býr í sama húsi og vopnaði maðurinn. Búið er að brjóta að minnsta kosti eina rúðu í íbúðinni þar sem maðurinn heldur sig og skothríð hefur staðið yfir í fleiri mínútur með stuttum hléum.

Liggur upp í rúmi með byssu

Íbúi segir við mbl.is að hann sjái hvar maðurinn liggur nú uppi í rúmi í svefnherberginu með byssuna. Íbúinn segir að lögreglan hafi brotið rúðu í eldhúsglugganum í morgun með því að skjóta inn reyksprengju. Nú er töluverður reykur í íbúðinni.

Lögreglan hefur lokað stóru svæði fyrir allri umferð. Þá hefur að minnsta kosti sá stigagangur sem maðurinn er í verið rýmdur og fólkið flutt í Árbæjarkirkju.

Íbúi þessi segist hafa heyrt fyrsta skothvellinn frá íbúðinni snemma í nótt. Lögregla hafi síðar komið á staðinn. 

Vopnaðir sérsveitarmenn eru á svæðinu.

Frétt mbl.is: Umsátursástand í Árbæjarhverfi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert