Sýnir hversu viðkvæm við erum

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það má eiginlega segja að þessi hakkari hafi gert okkur einn greiða þó að ég sé alls ekki hlynnt því sem viðkomandi gerði, þann greiða að sýna okkur svart á hvítu hve gríðarlega viðkvæm við erum fyrir svona árásum,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag vegna gagnalekans sem varð hjá fjarskiptafyrirtækinu Vodafone um helgina. Sagði hún ennfremur að það vantaði oft upp á að einhver viðurlög væru við slíku.

Birgitta spurði Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra hvort hún sæi einhvern mun á þessum leka og „því að viðkvæmum persónuupplýsingum var lekið og komið á framfæri við fjölmiðla úr hennar eigin ráðuneyti“. Hanna Birna svaraði því til að ekkert benti til þess að lekið hefði verið gögnum úr innanríkisráðuneytinu í máli ákveðins hælisleitanda.

„Ég minni líka þingheim á að þau gögn sem koma við í ráðuneytum, t.d. rökstuðningur er varðar svona mál og það þekkja þingmenn mjög vel, fara víða á milli stofnana, á milli lögmanna og annarra aðila sem tengjast málunum. Það að háttvirtur þingmaður leyfi sér að fullyrða úr ræðustól að leki hafi orðið úr ráðuneyti án þess að nokkuð bendi til þess finnst mér ansi bratt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka