Lögreglan er með mikinn viðbúnað og aðgerðir í Árbæjarhverfi í Reykjavík vegna manns sem er vopnaður og hefur í hótunum, samkvæmt heimildum mbl.is. Stóru svæði hefur verið lokað fyrir umferð. Vopnaðir lögreglumenn úr sérsveit ríkislögreglustjóra eru á svæðinu. Íbúðir í fjölbýlishúsinu sem maðurinn er í hafa verið rýmdar.
Fólkið hefur verið flutt í strætisvagni í Árbæjarkirkju þar sem komið hefur verið upp fjöldahjálparmiðstöð.
Íbúi sem hafði samband við mbl.is segist hafa verið að koma heim af næturvakt en ekki mátt fara heim til sín þar sem lögreglan er búin að loka svæðinu. Hann býr í Hraunbæ.
Fjölmargir lögreglubílar sem og sjúkrabílar eru á staðnum, að sögn ljósmyndara mbl.is.