Krefja menntamálaráðherra svara

Flensborgarskóli.
Flensborgarskóli.

Kennarar og nemendur í Flensborg og Iðnskólanum ásamt foreldrum og Hafnarfjarðabæ boða til borgarafundar í dag kl. 17 í Flensborg, um fjárhagslega stöðu framhaldsskólanna í bænum. „Menntamálaráðherra verður krafinn svara á fundinum,“ segir í tilkynningu. 

„Framhaldsskólum í Hafnarfirði blæðir,“ segir í tilkynningunni. „Kennarafélög, foreldrar og nemendur í Flensborg og Iðnskólanum í Hafnarfirði geta ekki með nokkru móti sætt sig við þann niðurskurð sem skólarnir standa nú frammi fyrir. Í mörg ár hafa þeir hagrætt eins og kostur er í rekstri sínum. Nú er hins vegar ekki hægt að hagræða meira og því blasir við blóðugur og sársaukafullur niðurskurður. Í Flensborg er nú verið að leggja niður allt verklegt nám og segja upp kennurum. Iðnskólinn stendur á sama tíma frammi fyrir því að þurfa að skera niður um fimmtíu milljónir og segja upp kennurum. Hvert stefnir í málum framhaldsskólans?  Er þetta upphafið af því sem koma skal?“

Í fréttatilkynningu segir að þess sé krafist að frekari niðurskurður verði dreginn til baka og hætt verði við þær sparnaðarkröfur sem snúa að framhaldsskólunum og koma fram í fjárlagafrumvarpinu.

„Við setjum fram þá kröfu að uppbygging framhaldsskólans til framtíðar hefjist nú þegar! Til þess þarf fjárveitingar í takt við þær áherslur sem koma fram í aðalnámskrá um framhaldsskóla um öflugt og fjölbreytt nám fyrir alla nemendur.

Kennarafélög, foreldrar og nemendur í Flensborg og Iðnskólanum í Hafnarfirði boða því til borgarafundar  þar sem menntamálaráðherra og fjármálaráðherra verða krafðir svara þar sem við þetta ástand verður ekki unað.“

Dagskrá fundarins kl. 17:

*         Fundarstjóri setur fundinn.

*         Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði.

*         Sæmundur Stefánsson, formaður kennarafélags Iðnskólans.

*         Sigríður Ragna Birgisdóttir, formaður kennarafélags Flensborgar.

*         Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara.

*         Katrín Ósk Ásgeirsdóttir, formaður Nemendafélags Flensborgarskólans.

*         Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra.

*         Fyrirspurnir og umræður

*        Stöndum saman og verjum fjölbreytt skólastarf í Hafnarfirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert