Frammistöðu íslenskra barna í stærðfræði hefur hrakað á síðustu 10 árum. Það sama gildir um frammistöðu í lesskilningi og náttúrufræði. Þetta sýna niðurstöður nýjustu PISA rannsóknar OCED. Landsbyggðin lætur sérstaklega undan síga, á meðan höfuðborgarsvæðið helst í horfinu.
Sé horft til allra PISA mælinga frá upphafi, þá hefur íslenskum nemendum hrakað sem nemur hálfu ári á síðasta áratug. Í þessari PISA-rannsókn var lögð áhersla á stærðfræðilæsi, lesskilningi og náttúrufræðilæsi. Frammistaða íslenskra nemenda hefur versnað í öllum greinunum.
Júlíus K. Björnsson forstöðumaður Námsmatsstofnunar segir þetta áhyggjuefni. „Frammistaðan okkar er að versna mjög mikið í öllum greinum. Við þurfum að fylgja þessu eftir með öllum þeim sem hafa vit á málinu og finna út hvað er það sem hefur farið úrskeiðis,“ sagði Júlíus þegar niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar í morgun.
Hann sagði jafnframt að niðurstöðurnar hefðu komið sér verulega á óvart, þegar hann sá þann mikla mun sem mælist á þróuninni milli Reykjavíkur og landsbyggðarinnar. „Reykjavík og nágrenni gefa eftir í stærðfræðilæsi, talsvert mikið, en það er næstum því ekki neitt miðað við þegar maður horfir á hin landssvæðin,“ sagði Júlíus.
Neikvæða þróunin í læsi á stærðfræði á Íslandi er að miklu leyti svæðisbundin, samkvæmt niðurstöðum PISA. Landsbyggðin lætur mjög undan síga og er frammistaðan þar almennt mun lakari en áður hefur verið. Júlíus segir að þetta verði að skoða miklu betur og finna skýringar á.
Sem dæmi má nefna að á Suðurnesjum hafa 15 ára börn hafa dregist heilu skólaári aftur úr í stærðfræðilæsi á áratug. Nemendur í 10. bekk þar árið 2012 stóðu sig eins og þeir væru í 9. bekk árið 2003.
Svipaða sögu má segja um þróunina á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi. Nemendum á þessum svæðum hefur farið aftur um u.þ.b. heilt ár í lok grunnskólagöngunnar, miðað við jafnaldra sem luku náminu fyrir áratug síðan.
Bent er á í skýrslunni að nemendur sem tóku PISA prófið 2012 voru að byrja í grunnskóla þegar nemendur sem tóku það 2003 voru að ljúka grunnskóla. Heilli grunnskólagöngu síðar hafa grunnskólanemendur sem útskrifast 2012 á þessum svæðum tapað sem nemur heilu skólaári miðað við jafnaldra sína sem útskrifuðust 2003.
PISA niðurstöðurnar benda ekki til þess að um mun á efnahag eða aðstæðum sé um að kenna, þar sem niðurstöðurnar breytast ekki þótt áhrif slíkra þátta séu tekin burtu.
Raunar er Ísland á meðal þeirra landa sem hafa hvað besta stöðu varðandi félagslega og efnahagslega stöðu skóla og heimila. Munur á milli skóla er hvergi minni en hér á landi. Júlíus segir að þessu ljósi mætti hugsanlega ætla að frammistaða nemenda ætti að vera betri.
Þá er vert að hafa tvennt í huga. Annars vegar það að flest löndin sem voru með í síðustu sambærilegu könnun, árið 2003, sýna afturför. Í öðru lagi að sveiflur virðast vera í frammistöðu íslenskra nemenda milli tímabila, sem hugsanlega má rekja til smæðar samfélagsins.
Sömu sveiflur má raunar sjá hjá hinum Norðurlöndunum þó með nokkuð öðrum hætti sé, að því er fram kemur í skýrslu Námsmatsstofnunar. Svíþjóð hefur verið á hraðri siglingu niður á við allan síðasta áratug og er nú með almennt lökustu frammistöðu allra Norðurlandanna.