Suðurnesin standa áberandi verst að vígi allra landshluta hvað varðar læsi og lesskilning grunnskólabarna. Þetta sýna niðurstöður nýjustu PISA-rannsóknarinnar sem kynntar voru í dag.
Nemendur skiptast á ólík hæfnisþrep og er fjöldi nemenda á efstu og neðstu þrepunum talsvert breytilegur eftir landshlutum. Í Reykjavík, nágrenni Reykjavíkur og á Vesturlendi hafa hlutfallslega fæstir nemendur mjög lítið læsi og lesskilning.
Suðurnes eru hinsvegar áberandi öðruvísi en önnur svæði og skera sig úr landinu í heild, að því leyti að þar eru hlutfallslega flestir nemendur á eða undir þrepi 1 í lesskilningi. Næst á eftir Suðurnesjum stendur Austurland verst að vígi.
Þegar kemur að stærðfræðilæsi mælast u.þ.b. 40% nemenda á Suðurnesjum á þrepi 1 og undir; það þýðir að þeir geta ekki nýtt sér tölur og stærðfræði til gagns. Þetta hlutfall er hátt á hinum svæðunum líka.
Náttúrufræðilæsi var einnig mælt í þessari PISA-könnun og þar eru Suðurnesin einnig frábrugðin öðrum landshlutum, með miklu fleiri nemendur undir neðsta þrepi, sem endurspeglar litla sem enga kunnáttu á því sviði, samkvæmt skýrslunni.
Raunar er eftirtektarvert að næstum engir nemendur á landinu ná efsta þrepi hæfninnar í náttúrufræðilæsi, og í fimm landsvæðum er það alls enginn.