Tilraunum til að smala síld út úr Kolgrafafirði með því að henda smásprengjum í fjörðinn verður að óbreyttu ekki haldið áfram næstu daga. Súrefnismettun í firðinum er talin vera næg fyrir þau 60 þúsund tonn af síld sem áætlað er að séu þar.
Bjarni Sæmundsson, skip Hafrannsóknastofnunar, er nú í leiðangri þar sem verkefnið er að mæla stærð og útbreiðslu síldarstofnsins. Komi í ljós að síldin hafi að stærstum hluta fundið sér vetrarstöðvar fyrir sunnan og suðaustan land er vandinn ekki talinn eins bráður og áður var óttast.
Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjastofna hjá Hafrannsóknastofnun, segir að eigi að síður verði áfram haldið áfram að þróa þær aðferðir sem notaðar voru í síðustu viku við smölun síldar með smásprengjum. Þær hafi að mörgu leyti reynst vel, en sníða þurfi af þeim nokkra hnökra.