Viðsnúningur ESB óskiljanlegur

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Viðsnúningur ESB er óskiljanlegur þar sem ekkert nýtt hefur gerst síðan hlé var gert á viðræðum og fyrri ákvörðun var tekin um framtíð IPA-styrkjanna. Þessi vinnubrögð eru forkastanleg að mínu mati og ekki til þess fallin að lyfta ímynd ESB á Íslandi að neinu leyti.“

Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra á vefsíðu sinni í dag í kjölfar ákvörðunar Evrópusambandsins um að hætta svokölluðum IPA-stuðningi við verkefni hér á landi í tengslum við umsókn Íslands um inngöngu í sambandið sem hafin voru áður en íslensk stjórnvöld ákváðu eftir þingkosningarnar í vor að gera hlé á umsóknarferlinu. Eins og mbl.is fjallaði um fyrr í kvöld verður ekki betur séð en að sú ákvörðun sé brot á rammasamningi sem Evrópusambandið gerði við íslensk stjórnvöld á síðasta ári um IPA-styrkina.

Ráðherrann segir að Evrópusambandið hafi „á fyrri stigum ítrekað gefið til kynna að öllum IPA verkefnum sem hafin væru yrði lokið án tillits til mögulegrar aðildar. Íslenskir og erlendir samstarfsaðilar hafa því haldið áfram að vinna að verkefnum í góðri trú um að Evrópusambandið myndi standa við fyrri ákvarðanir og yfirlýsingar.“

Hins vegar hafi sambandið nú brugðist þeim fjölmörgu aðilum sem það hafði áður gert samninga við um IPA-styrki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert