Lásasmiðurinn sem fenginn var til að opna læsingu á hurð Sævars Rafns Jónassonar sem skaut að lögreglu í Árbæ á mánudag var í stórhættu við starf sitt. Hann stóð fyrir framan hurðina óvarinn. Eftir að hann opnaði dyrnar steig hann til hliðar og hleypti Sævar Rafn þá af haglabyssu sinni í áttina að lögreglumönnum.
Þetta kom fram í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld. Þá kom fram að útkallið hefði verið hefðbundið og ekkert minnst á að mögulega væri vopnaður maður í íbúðinni. Um tuttugu mínútur tók fyrir lásasmiðinn að komast inn í íbúðina.
Lásasmiðurinn hefur ekki mætt til vinnu eftir þetta og hefur þegið áfallahjálp.
Eins og komið hefur fram lést maðurinn af völdum skotsára sem hann hlaut eftir skotbardaga við sérsveitarmenn. Starfsmenn tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu unnu enn á vettvangi í dag og eins og sjá má á meðfylgjandi myndum eru mikil ummerki eftir skotbardagann í stigagangi fjölbýlishússins.
Í gær höfðu ekki allir íbúar fjölbýlishússins snúið aftur til íbúða sinna.