Líkti tölvuþrjótnum við vítisengla

Ómar Svavarsson forstjóri Vodafone og Hrannar Pétursson upplýsingafulltrúi Vodafone mættu …
Ómar Svavarsson forstjóri Vodafone og Hrannar Pétursson upplýsingafulltrúi Vodafone mættu fyrir þingnefndarfund í morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson

Talsmenn Vodafone segja að efla þyrfti samráð milli fyrirtækja um varnir gegn netárásum, eins og fyrirtækið varð fyrir um helgina. Þeir segjast ekki draga fjöður yfir að málið sé alvarlegt, en að vafa sé undirorpið hvort það varði lög af þeirra hálfu.

Forsvarsmenn Vodafone á Íslandi voru boðaðir á fund umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun til að skýra mál sitt og sitja fyrir svörum.

Braust inn til að sýna hvað hann gæti

Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone, sagði að búið væri að afmarka umfang árásarinnar og séð að það magn gagna sem var tekið sé í samræmi við það sem var birt á netinu um helgina. Ekki ætti því að vera hætta á því að hakkarinn sé enn með efni sem hann eigi eftir að birta.

IP-tala var rakin til Istanbul í Tyrklandi. Ekki er hægt að fullyrða hvort að baki árásinni sé einn tölvuþrjótur eða ekki, en fyrir liggur að hann fann veikleika í kóðum á vefsíðu Vodafone og nýtti sér þá til að búa til n.k. bakdyr sem hann gat flutt gögnin út um. Talið er að hvati hakkarans hafi fyrst og fremst verið að sýna hvað hann gæti.

Ómar sagði að sér þyki vanta aðeins í umræðuna að framinn hafi verið glæpur, innbrot þar sem gögnum var beinlínis stolið. Hann benti á að þegar leðurklæddir Vítisenglar mæti í Leifsstöð sé allt kerfið látið vita og för þeirra stoppuð. Í samanburði sé skortur á samhæfðum viðbrögðum þegar tölvuþrjótar láti á sér kræla.

„Það eru 3-4 árásir í hverjum mánuði bara hjá okkur og stöðugar þreifingar,“ sagði Ómar og bætti við að Vodafone á heimsvísu verði fyrir 40-50 þúsund árásum á dag. „Sameiginlega geta fyrirtæki landsins barist betur en eitt og sér.“

„Mínar síður“ með persónuupplýsingum hjá fjölda fyrirtækja

Tæknistjóri Vodafone, Kjartan Briem, tók í sama streng. Hann benti á að a.m.k. 100 fyrirtæki í landinu séu með þjónustusvæði á sínum vefsíðum fyrir viðskiptavini þar sem geymd séu gögn með viðkvæmum persónuupplýsingum.

„Þetta er út um allt og ég held það hafi komið berlega í ljós að við erum ekki komin nógu langt í því að setja upp vettvang um hvernig við getum varist árásum af netinu.“

Hann sagði að Vodafone hafi sent öðrum fyrirtækjum sem eftir því óskuðu allar þær upplýsingar sem unnt væri til að þau gætu dregið lærdóm af og varið sig fyrir samskonar árás. Hinsvegar teldi hann brýna þörf á því að búa til samræmt ferli um viðbrögð við tölvuárásum, eins og öðrum ógnum í samfélaginu.

„Við í þessum geira erum öll sammála um að það er hægt að gera betur og við verðum að gera betur.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spyr forsvarsmenn Vodafone á fundi …
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spyr forsvarsmenn Vodafone á fundi þingnefndar í morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert