Netglæpir ört vaxandi ógn

Aðgerðarsinni sem kennir sig við hakkarasamtökin Anonymous tilkynnir um tölvuárás …
Aðgerðarsinni sem kennir sig við hakkarasamtökin Anonymous tilkynnir um tölvuárás á netinu. AFP

Netárásir eru sú ógn í glæpaheiminum sem vex örast í dag og þar liggja gríðarlegir hagsmunir undir. Þetta segir Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra.

„Það er hægt að valda óbætanlegu tjóni með netárásum. Þetta er eitthvað sem við þurfum að setja í forgang,“ sagði Jón á fundi með umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í dag þar sem fjallað var um árásina á Vodafone og lekann á persónuupplýsingum sem fylgdi í kjölfarið.

Lögreglan ræður ekki við málið ein

Fulltrúar ríkislögreglustjóra, Persónuverndar og Póst- og fjarskiptastofnunar, sem allir voru boðaðir á fundinn, voru meira og minna á einu máli um það að Ísland sé vanbúið til að verjast tölvuárásum. Vitundarvakningu þurfi í samfélaginu og efla þurfi eftirlit í kerfinu. 

„Það þyrfti að auka viðbúnað lögreglu til að takast á við þessi mál, en það er líka ljóst að lögreglan eins og sér getur ekki tekist á við þetta,“ sagði Jón. 

„Við getum ekki tekist á við þetta nema í alþjóðlegri samvinnu. Það þarf að herða viðbúnaðinn og styrkja löggjöfina þannig að við verðum samstarfshæf við aðrar stofnanir en það er ljóst að það kostar peninga, bæði í búnað og mannskap.“

Öryggi og frelsi takast á

Hann benti á að glæpir séu í miklum mæli að færast inn á netið, m.a. með fölsunum á gögnum, ýmiss konar svindli og þjófnaði. Þess utan verði sífellt einfaldara að hakka vefsíður með öflugum forritum. 

„Þannig að ógnin er  vaxandi. Við verðum og horfast í augu við það og það verður að fara fram vitundarvakning í samfélaginu,“ sagði Jón.

Þarna takist þó á krafan um öryggi og um frelsi. „Þetta er nútíminn. Við viljum hafa aðgang að allri þessari tækni og geta nýtt okkur hana í upplýsingaskyni, en þá verðum við líka að skilja að við þurfum að vanda okkur. 

Jón F. Bjartmarz yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra.
Jón F. Bjartmarz yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra. mbl.is
Frá fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um netöryggi í morgun.
Frá fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um netöryggi í morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka