Lögreglumenn fengu skjól hjá fjölskyldu

Starfsmenn tæknideildar lögregllu vinna á vettvangi.
Starfsmenn tæknideildar lögregllu vinna á vettvangi. mbl.is/Rósa Braga

Tveir lögreglumenn leituðu skjóls hjá pólskri fjölskyldu á þriðju og efstu hæð Hraunbæjar 20 til að forðast byssumann sem þá hafði skotið á þá og félaga þeirra.

Þeir voru í fyrsta hópnum sem kom á vettvang aðfaranótt mánudags. Í fyrstu taldi lögregla mögulegt að maðurinn hefði framið sjálfsvíg í íbúðinni og opnaði dyrnar að íbúðinni til að kalla inn til hans. Maðurinn skaut þá úr haglabyssu á lögreglu, skotið hæfði skjöld eins lögreglumannsins sem kastaðist við það aftur á bak niður stigann. Lögreglumennirnir tveir hörfuðu upp á þriðju hæð og þar urðu þeir í raun innlyksa. Þeir voru óvopnaðir og höfðu því afar litla eða enga möguleika til að verjast byssumanninum.

Sveittir og stressaðir

Í íbúðinni voru systkini, 17 ára stúlka og 26 ára karlmaður, móðir þeirra og kærasta mannsins. Fjölskyldan hefur búið hér í 5-6 ár en þau eru frá borginni Elk í norðausturhluta Póllands. Morgunblaðið ræddi í gær við systkinin tvö.

„Mamma vakti okkur og sagði að það væri verið að berja á dyrnar og að hún hefði heyrt skot eða sprengingu. Ég fór að dyrunum og kallaði og spurði hver hefði bankað. Ég leit í gegnum gægjugatið á hurðinni og sá tvo lögreglumenn á stigapallinum,“ sagði maðurinn. Lögreglumennirnir hefðu líka barið á dyrnar á hinum tveimur íbúðunum á stigaganginum en virtust ekki hafa fengið svör þar. „Ég opnaði fyrir þeim og hleypti þeim inn. Þeir voru sveittir og greinilega mjög stressaðir,“ sagði maðurinn.

Þegar stúlkan kom fram voru lögreglumennirnir komnir inn og hún áttaði sig ekki strax á því hvað væri að gerast. „Við vissum ekki hvort hann væri með byssu eða sprengju. Við vorum óskaplega hrædd,“ segir stúlkan. „Þetta var bara eins og í bíómynd.“

Þótt lögreglumennirnir hafi augljóslega verið stressaðir hafi þeir verið mjög almennilegir og m.a. hafi þeir látið hana fá lögregluúlpu þegar hún kvartaði undan kulda.

Lögreglumennirnir voru óvopnaðir og maðurinn bendir á að þótt annar þeirra hafi haft hylki með piparúða hefði það dugað skammt ef byssumaðurinn hefði komið á eftir þeim upp á þriðju hæð. Lögreglumennirnir hefðu spurt hvort byssa eða annað sem mætti nota til varnar væri í íbúðinni en svo var ekki.

Þeir hefðu beðið konurnar þrjár sem voru í íbúðinni að vera frammi í stofu og sitja í sófa en þar voru þær fjarri gluggum. Maðurinn og lögreglumennirnir tveir hefðu síðan hjálpast að við að setja rúm, kassa með gervijólatré og stóla fyrir dyrnar til að torvelda manninum inngöngu, reyndi hann að brjóta sér leið inn í íbúðina.

Maðurinn segir að annar lögreglumaðurinn hafi tekið sér stöðu á gangi, við hlið inngangsins í íbúðina en hann hafi sjálfur tekið sér stöðu í eldhúsinu. Þannig hefðu þeir getað sótt að byssumanninum úr tveimur áttum, kæmist hann inn. Hinn lögreglumaðurinn hafi fylgst með atburðarásinni út um glugga.

Systkinin telja að lögreglumennirnir hafi verið í íbúðinni frá um klukkan 3.30 til um 5, þegar liðsmenn sérsveitar ríkislögreglustjóra fylgdu þeim út. Það bar mjög brátt að. Stúlkan segir að sérsveitarmenn hafi barið á dyrnar og lögreglumennirnir tveir í fyrstu ekki verið vissir um að þarna væru lögreglumenn á ferð. Síðan hafi þeir sagt að allir ættu að fara út þegar í stað. Þau hafi ekki haft ráðrúm til að klæða sig og hún var því aðeins á náttfötunum og berfætt þegar þau yfirgáfu íbúðina. Sérsveitarmennirnir hafi fylgt þeim niður stigaganginn, skýlt þeim með skjöldum sínum og beint byssum sínum að íbúð mannsins þegar þau fóru framhjá henni. Stigagangurinn var þá fullur af reyk eða gasi og leysimið sem lögregla notar til að miða byssum sínum sáust því vel. Stúlkan segist hafa þurft að hlaupa dálítinn spöl í snjónum berfætt og auðvitað orðið ískalt. „Ég fæ gæsahúð þegar ég hugsa um þetta núna,“ segir hún.

Fékk enga hjálp

Systkinin og annar nágranni mannsins sem Morgunblaðið ræddi við í gær lýsa því hvernig veikindi byssumannsins virðast hafa ágerst undanfarið. Þau lýsa ýmsu ónæði af hans völdum, hann talað eða rifist við sjálfan sig, sparkað ítrekað í bíl sem hann átti o.fl. Nágranninn taldi að manninum hefði hrakað í kjölfar áreksturs sem hann hefði lent í fyrir um tveimur vikum.

„Greyið maðurinn, hann fékk enga hjálp. En löggan gerði allt sem hún gat,“ segir stúlkan.

Göt eftir haglabyssuskot mannsins á stigagangi fjölbýlishússins.
Göt eftir haglabyssuskot mannsins á stigagangi fjölbýlishússins. mbl.is/Rósa Braga
Enn má greina blóðslóð á ganginum.
Enn má greina blóðslóð á ganginum. mbl.is/Rósa Braga
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert