Nafn- og myndbirting barnaníðinga á netinu eykur líkur á því að þeir brjóti aftur af sér, að mati sálfræðings. Hann segir að menn þurfi að fá tækifæri til að snúa aftur út í samfélagið og bæta sig. Séu þeir sífellt úthrópaðir sem barnaníðingar fyllist þeir reiði sem beinist gegn samfélaginu.
Þetta kemur fram í Fréttatímanum sem kemur út á morgun. Þar er rætt við Þórarin Viðar Hjaltason um kynferðisbrot gegn börnum. Þórarinn segist mótfallinn vefsíðum sem gera út á að birta myndir og nöfn dæmdra barnaníðinga.
Greint var frá einni slíkri síðu á mbl.is nýverið, síðunni Stöndum saman. Á umræddu vefsvæði segir að Ísland sé lítið samfélag og barnaníð eigi ekki að líðast í svo litlu samfélagi. „Ásamt því að veita upplýsingar um forvarnir upplýsir síðan um þá sem hafa verið dæmdir fyrir barnaníð á Íslandi sem og íslendinga sem hafa verið dæmdir erlendis fyrir barnaníð.“ Þá segir að vefurinn sé fyrst og fremst upplýsingaveita um forvarnir fyrir foreldra.
Í viðtalinu í Fréttatímanum segir Þórarinn að þetta sé grafalvarlegt mál. „Þeir sem halda þessum síðum úti gera það líklegast í góðri trú en það sem þeir eru í raun að gera er að auka líkur á að einhverjir þeirra brjóti af sér aftur. Menn þurfa að fá tækifæri til að snúa aftur í samfélagið og bæta sig. Ef þeir eru sífellt úthrópaðir barnaníðingar og er úthýst alls staðar fyllast þeir frekar reiði út í samfélagið og sjá enga ástæðu til að halda sig réttum megin í lífinu.“
Hann segir að það sem mestu máli skipti sé fræðsla til barna.