Súrefnismettun minnkar í frostinu

Smábátar hafa verið við síldveiðar í Kolgrafafirði síðustu daga. Þessi …
Smábátar hafa verið við síldveiðar í Kolgrafafirði síðustu daga. Þessi mynd var tekin þegar Landhelgisgæslan reyndi að hrekja síldina út úr firðinum. mbl.is/Árni Sæberg

Súrefnismettun í Kolgrafafirði hefur lækkað í dag úr 85% niður í 76%. Bjarni Sigurbjörnsson, bóndi á Eiði, segir að þetta gerist í kjölfar kuldans sem nú gengur yfir landið. Miklu frosti er líka spáð á morgun, en Bjarni vonar að ekki komi til þess að síld fari að drepast í firðinum.

Bjarni segir að til að síldin fari að drepast þurfi súrefnismettun að fara niður í 20%. Hann segir að mettunin geti minnkað hratt, sérstaklega ef fjörðinn fari að leggja og því aldrei að vita hvað gerist.

Bjarni segir að mælingar bendi til að um 58 þúsund tonn af síld séu í Kolgrafafirði, en í fyrra þegar síldin var að drepast er talið að allt að 280 þúsund tonn hafi verið í firðinum. Minna magn dragi úr líkum á síldardauða.

Nokkrir smábátar hafa verið að veiða síld í firðinum í dag og í gær. Stóru síldarskipin, sem lónað hafa fyrir utan Kolgrafafjörð síðustu daga, eru hins vegar farin af svæðinu enda hafa þau ekki fengið neitt. Skipin ætla að leita fyrir sér við suðurströndina.

Ekki er útilokað að haldið verði áfram að reyna að hrekja síld úr Kolgrafafirði með hvellhettum. Bjarni er ekki í vafa um að aðferðin virkar. Menn hafi hins vegar ekki haft birtuna með sér því að ekki er hægt að byrja aðgerðir fyrr en á útfallinu. Hann telur rétt að halda áfram að reyna þessa aðferð þannig að hægt sé að grípa til hennar þegar stefnir í óefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert