Bandaríska fyrirtækið Rekode stendur nú fyrir námskeiði í forritun og sjálfseflingu fyrir börn í bænum Redmond í Bandaríkjunum, skammt frá Seattle.
Rekode er í eigu frumkvöðulsins Rakelar Sölvadóttur en það fékk nýverið leyfi Seðlabanka Íslands til að kaupa íslenska fyrirtækið Skema, sem hefur staðið fyrir sambærilegum námskeiðum á Íslandi og er í eigu Rakelar, Háskólans í Reykjavík og íslensks fjárfestis.
„Þetta námskeið og næstu eru hugsuð til að koma af stað jákvæðu umtali í samfélaginu,“ segir Rakel í samtali í Morgunblaðinu í dag. Það er sú aðferð sem fyrirtækið hyggst beita til að auglýsa sig. Það hefur þó raunar þegar fengið afar góða viðtökur, bæði vestra og víðar, og stefnt er á að Rekode-setur, þar sem nemendur og kennarar geta sótt námskeið í forritun, verði opnuð í Redmond, San Francisco, Los Angeles og Las Vegas á næsta ári.