Lögreglumaður sakfelldur

Handtakan átti sér stað á Laugavegi.
Handtakan átti sér stað á Laugavegi.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt lögreglumann sem var ákærður fyrir líkamsárás vegna handtöku á Laugavegi í júlí sl. Dómur yfir manninum var kveðinn upp kl. 13.15 í dag.

Lögreglumaðurinn var dæmdur til greiðslu 300.000 kr. í sekt fyrir að hafa farið offari við handtökuna og beitt meira valdi en nauðsyn bar til. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir líkamsárás í opinberu starfi. 

Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur lögreglumanninum fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi í ágúst sl.

Myndband af lögreglumanninum handtaka konu í miðborg Reykjavíkur í júlí fór sem eldur í sinu á samfélagsmiðlum og var maðurinn í kjölfarið leystur frá störfum.

Við aðalmeðferð málsins sagði lögreglumaðurinn að um fumlausa handtöku hefði verið að ræða.

Í október var konan dæmd í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hrækja á lögreglumanninn sem handtók hana. Konan játaði skýlaust brot sitt fyrir dómi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert