Mátti handtaka konuna

Handtakan á Laugavegi.
Handtakan á Laugavegi.

Lögreglumanninum sem sakfelldur var í héraðsdómi fyrir að hafa farið offari þegar hann handtók konu eina í miðborg Reykjavíkur í sumar mátti, samkvæmt niðurstöðu dómsins, vera ljóst að konan væri svo ölvuð að hún myndi ekki veita mikla mótspyrnu. Því hafi ekki verið nauðsynlegt að snúa hana niður.

Að sögn Gríms Hergeirssonar, lögmanns lögreglumannsins, mun hann sækja um áfrýjunarleyfi eftir helgi en án þess fær hann ekki að áfrýja dómnum til Hæstaréttar. Sakamáli verður áfrýjað án leyfis Hæstaréttar ef maður er dæmdur til skilorðsbundinnar eða óskilorðsbundinnar refsivistar eða hann dæmdur til greiðslu sektar eða eignaupptöku að hærri fjárhæð en 734.860 krónum.

Leyfi þarf hins vegar ef ákærði hefur í héraði verið dæmdur til greiðslu sektar eða eignaupptöku að lægri fjárhæð en 734.860 krónum. Lögreglumaðurinn var dæmdur til 300 þúsund króna sektar og þarf því leyfi frá Hæstarétti til að geta áfrýjað.

„Þetta er þess eðlis að það er nauðsynlegt að fá endurmat. Dómurinn er þannig og röksemdarfærsla dómarans er afar hæpin,“ segir Grímur.

Hann segir að tekið sé fram í dómnum að lögreglumanninum hafi verið rétt að beita aðferðum til koma í veg fyrir að konan beitti frekara ofbeldi. Honum var rétt að handjárna hana og setja hana í lögreglubíl. Við það hafi lögreglumaðurinn beitt lögmætum aðferðum. Hins vegar segir að honum hafi mátt vera ljóst að konan var svo ölvuð að hún myndi ekki veita mikla mótspyrnu. Þess vegna verði ekki séð að það hafi verið nauðsynlegt að snúa hana niður á þann hátt sem gert var.

Grímur segir að þetta segi dómarinn þrátt fyrir að það komi fram að setja hafi þurft konuna í fótlás í bílnum á leiðinni niður á lögreglustöð vegna þess að hún sparkaði svo frá sér og veitti einmitt mótspyrnu. „Og ef við gefum okkur að konan hafi verið allsgáð, þá mátti lögreglumaðurinn væntanlega vænta þess að hún veitti mótspyrnu og því mátt snúa hana niður. Svona ef maður gagnályktar út frá þessum dómi.“

Ennfremur segir Grímur að þetta hljóti að þýða breytt vinnubrögð hjá lögreglu þegar glímt er við ölvað fólk. Lögreglumenn megi ekki búast við því að mjög ölvað fólk, hvort sem það er karl eða kona, veiti mótspyrnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka