Mögulegar hleranir til lögreglunnar

„Við höfum haft afskaplega naumar fréttir af þessu og ótraustar. Þannig að fyrst er að gera sér grein fyrir því hvort einhver hæfa er í þessu eða ekki. En samhliða munum við að sjálfsögðu vera í sambandi við lögregluna, fjarskiptaeftirlit og okkar tæknifólk auðvitað líka til þess að reyna að fá einhvern botn í þetta.“

Þetta segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, í samtali við mbl.is en gögn sem birt voru á netinu í gær benda til þess að símar þingsins hafi verið hleraðir á um fjögurra mánaða tímabili í lok árs 2009 og byrjun 2010. Um svipað leyti fannst óþekkt tölva í húsakynnum Alþingis sem enginn kannaðist við en merkingar höfðu verið fjarlægðar af henni og fingraför. Grunur lék á að hún hefði verið notuð til þess að brjótast inn í tölvukerfi þingsins en málið hefur enn ekki verið upplýst.

„En ef það er eitthvað til í þessum fregnum þá er þetta mjög alvarlegur hlutur og það verður að gera allt til þess að koma í veg fyrir að svona einkasamtöl verði gerð aðgengileg öðrum en þeim sem tóku þátt í þeim og þeim verði dreift sé þetta efni einhvers staðar til. Það verður að vernda friðhelgi einkalífs einkalífs manna jafnt þingmanna eins og annarra,“ segir Helgi ennfremur.

Spurður um tölvuna sem fannst á Alþingi og möguleg tengsl við hana í ljósi þess að mögulegar hleranir hafi átt sér stað um það leyti sem hún fannst segir Helgi: „Við getum auðvitað ekkert fullyrt um það en óneitanlega vekur það einhverjar grunsemdir og það þarf auðvitað að ganga úr skugga um það hvort það er eitthvað samhengi þar á milli. En það er ekki gefið fyrirfram.“ Lögreglan taki væntanlega það mál að sér.

Frétt mbl.is: Voru símar Alþingis hleraðir?

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis.
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis. mbl.is/Bragi Þór Jósefsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Óli Már Guðmundsson: Lol
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert