Kallað hefur verið eftir sex sérfræðingum á vegum Rauða kross Íslands til hjálparstarfa á Filippseyjum í kjölfar hamfaranna sem gengu yfir landið í byrjun síðasta mánaðar.
„Elín Jónasdóttir, sálfræðingur hélt til Filippseyja á fimmtudag, til að skipuleggja áfallahjálp og sálrænan stuðning vegna hamfaranna, og mun sérstaklega vinna að því að setja upp ferli til að aðstoða starfsfólk og sjálfboðaliðum Rauða krossins sem vinna við mjög erfiðar aðstæður til að vinna úr þeim áföllum sem mæta þeim í starfi,“ segir í fréttatilkynningu frá RKÍ. Ennfremur haldi tveir íslenskir hjúkrunarfræðingar til starfa á Filippseyjum í dag og á morgun.
„Hrönn Hakansson mun vinna á tjaldsjúkrahúsi við mæðravernd og ungbarnaeftirlit í Balangiga. Þetta er fyrsta verkefni Hrannar fyrir Rauða krossinn. Magna Björk Ólafsdóttir mun svo starfa við sama tjaldsjúkrahús á Samareyjum og þeir Aleksandar Knezevic rafvirki og Orri Gunnarsson verkfræðingur. Þetta er í fjórða sinn sem Magna tekur að sér verkefni á vettvangi fyrir Rauða krossinn,“ segir sömuleiðis. Þá var Karl Sæberg Júlísson einnig við hjálparstörf á hamfarasvæðinu.
Minnt er á söfnunarsíma Rauða krossins 904 1500, 904 2500 og 904 5500 vegna Filippseyja. Einnig sé hægt að borga með kreditkorti á netinu raudikrossinn.is eða leggja inn á reikning 0342-26-0012, kt. 530269-2649.