Ríflega helmingur allra íbúa í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi hafa skrifað undir áskorun til heilbrigðisráðherra að falla frá því að fella heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar undir heilbrigðisstofnun Ísafjarðar. Undirskriftirnar voru afhentar Kristjáni Þór Júlíussyni, heilbrigðisráðherra í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu vegna málsins.
„Íbúarnir óttast að með sameiningunni muni þjónusta skerðast og öryggi þeirra verði ógnað.Þá mun sameiningin einnig auka enn á einhæfni í atvinnulífi og fækka atvinnutækifærum. Aðgerðin er í hrópandi mótsögn við fyrirheit ríkisstjórnarinnar um eflingu byggða og mikilvægt hlutverk hins opinbera við að halda úti þjónustu í nærsamfélaginu. Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar er vel rekin og hefur haldið sig innan fjárheimilda undanfarin ár, því er aðför ráðherra að heilbrigðisstofnuninni á Patreksfirði óskiljanleg,“ segir í tilkynningunni.
„Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur boðist til að yfirtaka rekstur heilbrigðisstofnunarinnar en ráðherra hefur ekki svarað því boði. Sveitarfélagið hefur horft til þess að við yfirtökuna geta orðið til mörg tækifæri í samþættingu þjónustu við íbúa í samstarfi við Félagsþjónustu Vestur-Barðastrandarsýslu sem rekin er sameiginlega af Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi.“
„Möguleiki er á að auka þjónustustigið og efla faglegt starf með sérhæfðu starfsfólki þar sem horft er heildstætt á hvert mál fyrir sig þar sem heilsugæsla og félagsþjónusta vinna saman að bestu lausn mála. Sá möguleiki verður fyrir bí þegar ákvarðanataka flyst til Ísafjarðar.Þá er sameiningin óskiljanleg í ljósi þess að litlar sem engar samgöngur eru milli Vesturbyggðar og Ísafjarðar 9 mánuði á ári.“
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar og Gunnar Ingvi Bjarnason bæjarfulltrúi afhentu ráðherra undirskriftirnar 668 í Velferðarráðuneytinu og skoruðu við það tækifæri enn einu sinni á ráðherra að hverfa frá þessum áætlunum um sameiningu og ræða við sveitarfélagið um yfirtöku þess á rekstri heilbrigðisstofnunarinnar.