Beina kröfum að stjórnarmönnum í Eir

Hjúkrunarheimilið Eir að Fróðengi 1-11í Grafarvogi.
Hjúkrunarheimilið Eir að Fróðengi 1-11í Grafarvogi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ragn­ar Aðal­steins­son hæsta­rétt­ar­lögmaður vill að stjórn­ar­mönn­um í hjúkr­un­ar­heim­il­inu Eir verði skrifað bréf þar sem íbúðarrétt­haf­ar áskilji sér rétt til að krefja þá um bæt­ur vegna fjár­tjóns sem þeir hafa orðið fyr­ir.

Boðað hef­ur verið til fund­ar í dag þar sem fyr­ir­hugað er að stofna „Hags­muna­fé­lag íbúðarétt­ar­hafa á Eir“. Á fund­in­um ætl­ar Ragn­ar að gera grein fyr­ir stöðu Eir­ar-máls­ins og kynna sam­an­tekt um málið.

Heim­ild Eir­ar til greiðslu­stöðvun­ar rann út 6. des­em­ber og ligg­ur fyr­ir heim­ild til að leita nauðasamn­inga. Í nauðasamn­ing­um er íbú­um í ör­yggis­íbúðum boðið skulda­bréf til 30 ára með 3,5% vöxt­um.

Bú­setu­rétt­ur­inn var­inn af stjórn­ar­skrá

Ragn­ar bend­ir á í sam­an­tekt sinni að hin lög­fræðilega merk­ing hug­taks­ins bú­setu­rétt­ur liggi ekki fyr­ir með skýr­um hætti. „Eitt er þó víst að  bú­setu­rétt­ur er eign og nýt­ur vernd­ar eign­ar­rétt­ar­á­kvæðis stjórn­ar­skrár­inn­ar,“ seg­ir Ragn­ar.

Ragn­ar tel­ur nauðsyn­legt að huga að því hvort stofn­end­ur Eir­ar og þeir sem síðar gerðust aðilar að Eir og til­nefndu full­trúa í full­trúaráðið hafi bakað sér fé­bóta­ábyrgð á hátt­semi full­trúa sinna í full­trúaráði og stjórn Eir­ar. Hann seg­ir að þá sé fyrst að líta til þess hvort unnt sé að sýna fram á að full­trú­arn­ir hafi gerst sek­ir um gá­leysi við meðferð þess valds sem þeim var falið. Telj­ist sýnt fram á slíkt gá­leysi þarf að taka af­stöðu til þess hvort unnt sé að sýna fram á, að  til­nefn­ing­araðilarn­ir beri einskon­ar hús­bónda­ábyrgð á störf­um full­trú­anna.

„Per­sónu­leg ábyrgð stjórn­ar­manna og fram­kvæmda­stjóra og jafn­vel einnig full­trúaráðsmanna ræðst af al­menn­um regl­um skaðabóta­rétt­ar­ins. Sýna þarf fram á að aðgerðir þeirra eða aðgerðal­eysi hafi verið sak­næm í þeim skiln­ingi, að þeir hafi sýnt af sér gá­leysi eða jafn­vel stór­kost­legt gá­leysi.  Hátt­sem­in verður að hafa stang­ast á við lög, þ.e. verið ólög­mæt. Þá þarf og að sýna fram á or­saka­sam­band milli hátt­semi þess­ara aðila og fjár­tjóns íbúðarrétt­haf­anna.“

Ragn­ar tel­ur rétt að þeim sem standa að Eir, Reykja­vík­ur­borg o.fl., verði skrifað bréf þar sem íbúðarrétt­haf­ar áskilja sér rétt til að gera þessa aðila skaðabóta­ábyrga fyr­ir mis­tök­um full­trúa þeirra í full­trúaráði og stjórn. Rök­styðja þurfi mis­tök full­trú­anna og með hvaða rök­um til­nefn­ing­araðilarn­ir beri ábyrgð á þeim. Sama gildi um per­sónu­lega ábyrgð full­trúa og stjórn­ar­manna. Þeim þurfi að skrifa bréf þar sem rétt­haf­ar áskilji sér rétt til að krefja þá um bæt­ur og gera grein fyr­ir bóta­grund­vell­in­um.

Ríkið skaðabóta­skylt?

Í sam­an­tekt Ragn­ars er fjallað um veðsetn­ingu Eir­ar, en í gangi er dóms­mál þar sem færð eru rök fyr­ir því að mis­tök hafi verið gerð við þing­lýs­ingu. Ragn­ar seg­ir eðli­legt að kanna hvort hátt­semi eft­ir­litsaðil­anna og um­sagnaraðilans geti bakað rík­inu bóta­skyldu gagn­vart bú­setu­rétt­ar­höf­un­um. Í því sam­hengi þurfi að taka af­stöðu til þess hvort þess­ir aðilar hafi gerst sek­ir um van­rækslu við fram­kvæmd skyldu­starfa sinna þannig að það baki rík­inu bóta­skyldu.

Stofn­fund­ur Hags­muna­fé­lags íbúðarrétt­ar­hafa hefst í kvöld kl. 19.30 í sal Sam­hjálp­ar í Stang­ar­hyl 3, Reykja­vík.

Ragnar Aðalsteinsson.
Ragn­ar Aðal­steins­son.
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka