Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður vill að stjórnarmönnum í hjúkrunarheimilinu Eir verði skrifað bréf þar sem íbúðarrétthafar áskilji sér rétt til að krefja þá um bætur vegna fjártjóns sem þeir hafa orðið fyrir.
Boðað hefur verið til fundar í dag þar sem fyrirhugað er að stofna „Hagsmunafélag íbúðaréttarhafa á Eir“. Á fundinum ætlar Ragnar að gera grein fyrir stöðu Eirar-málsins og kynna samantekt um málið.
Heimild Eirar til greiðslustöðvunar rann út 6. desember og liggur fyrir heimild til að leita nauðasamninga. Í nauðasamningum er íbúum í öryggisíbúðum boðið skuldabréf til 30 ára með 3,5% vöxtum.
Ragnar bendir á í samantekt sinni að hin lögfræðilega merking hugtaksins búseturéttur liggi ekki fyrir með skýrum hætti. „Eitt er þó víst að búseturéttur er eign og nýtur verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar,“ segir Ragnar.
Ragnar telur nauðsynlegt að huga að því hvort stofnendur Eirar og þeir sem síðar gerðust aðilar að Eir og tilnefndu fulltrúa í fulltrúaráðið hafi bakað sér fébótaábyrgð á háttsemi fulltrúa sinna í fulltrúaráði og stjórn Eirar. Hann segir að þá sé fyrst að líta til þess hvort unnt sé að sýna fram á að fulltrúarnir hafi gerst sekir um gáleysi við meðferð þess valds sem þeim var falið. Teljist sýnt fram á slíkt gáleysi þarf að taka afstöðu til þess hvort unnt sé að sýna fram á, að tilnefningaraðilarnir beri einskonar húsbóndaábyrgð á störfum fulltrúanna.
„Persónuleg ábyrgð stjórnarmanna og framkvæmdastjóra og jafnvel einnig fulltrúaráðsmanna ræðst af almennum reglum skaðabótaréttarins. Sýna þarf fram á að aðgerðir þeirra eða aðgerðaleysi hafi verið saknæm í þeim skilningi, að þeir hafi sýnt af sér gáleysi eða jafnvel stórkostlegt gáleysi. Háttsemin verður að hafa stangast á við lög, þ.e. verið ólögmæt. Þá þarf og að sýna fram á orsakasamband milli háttsemi þessara aðila og fjártjóns íbúðarrétthafanna.“
Ragnar telur rétt að þeim sem standa að Eir, Reykjavíkurborg o.fl., verði skrifað bréf þar sem íbúðarrétthafar áskilja sér rétt til að gera þessa aðila skaðabótaábyrga fyrir mistökum fulltrúa þeirra í fulltrúaráði og stjórn. Rökstyðja þurfi mistök fulltrúanna og með hvaða rökum tilnefningaraðilarnir beri ábyrgð á þeim. Sama gildi um persónulega ábyrgð fulltrúa og stjórnarmanna. Þeim þurfi að skrifa bréf þar sem rétthafar áskilji sér rétt til að krefja þá um bætur og gera grein fyrir bótagrundvellinum.
Í samantekt Ragnars er fjallað um veðsetningu Eirar, en í gangi er dómsmál þar sem færð eru rök fyrir því að mistök hafi verið gerð við þinglýsingu. Ragnar segir eðlilegt að kanna hvort háttsemi eftirlitsaðilanna og umsagnaraðilans geti bakað ríkinu bótaskyldu gagnvart búseturéttarhöfunum. Í því samhengi þurfi að taka afstöðu til þess hvort þessir aðilar hafi gerst sekir um vanrækslu við framkvæmd skyldustarfa sinna þannig að það baki ríkinu bótaskyldu.
Stofnfundur Hagsmunafélags íbúðarréttarhafa hefst í kvöld kl. 19.30 í sal Samhjálpar í Stangarhyl 3, Reykjavík.