„Ég næ ekki að framkalla neina myndræna mynd af því að hafa gert þessa hluti.“ Þetta sagði Stefán Blackburn spurður út í ákæruatriði á hendur honum. Skýrslutökunni var svo gott sem sjálfhætt eftir þetta. „Ég kannast ekki við þetta mál,“ sagði hann og ítrekaði svo svar sitt við hverja spurningu.
Stefán er ákærður fyrir frelsissviptingu og stórfelldar líkamsárásir, ásamt fleiri brotum. Verjandi Stefáns sagði hann hafa lent í bílslysi sem hefði haft mikil áhrif á hann. Stefán sagðist sjálfur hafa orðið fyrir miklu minnistapi vegna slyssins og myndi því ekkert hvað gerðist þá helgi sem árásirnar áttu sér stað. „Ég hef alltaf verið hraustur strákur en fæ núna svæsna höfuðverki,“ sagði Stefán.
Allir sakborningar hafa gefið skýrslu og er komið að vitnum.