Vinstri græn segja mögulegt að auka framlög til heilbrigðiskerfisins án þess að skera niður stuðning við tekjulágar fjölskyldur og án þess að auka álögur á almenning.
Þingflokkur Vinstri grænna hefur unnið eigin breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið sem verða kynntar á morgun og fela í sér breytingar á bæði tekju- og gjaldahlið frumvarpsins.
„Forgangsröðun sem felur í sér niðurskurð hjá þeim sem verst standa í samfélaginu, og reyndar í heiminum, á sama tíma og skattalækkanir á auðugustu hópa samfélagsins standa óhaggaðar er rammskökk,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Hún segir þetta dapurlega forgangsröðun hjá ríkisstjórninni.
Til umræðu er í fjárlaganefnd Alþingis að lækka hámark vaxta- og barnabóta um samtals 600 milljónir króna og setja það fjármagn í staðinn í að styrkja heilbrigðiskerfið. Þá er einnig til skoðunar að lækka framlög til þróunaraðstoðar í sama tilgangi.
Vinstri græn benda á að á sama tíma séu engin áform hjá ríkisstjórninni um að endurheimta tekjur „sem hún hefur ákveðið að gefa eftir til stórútgerðarinnar, stóreignafólks, hátekjuhópa, o.fl.“
Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, segir að fyrir liggi að mögulegt sé að auka framlög til heilbrigðiskerfisins án þess að skera niður stuðning við tekjulágar barnafjölskyldur og án þess að auka álögur á almenning.
Þingflokkur VG hyggst leggja til að innheimta auðlegðarskatts haldi áfram að loknu næsta ári og að auðlindagjald af sjávaraútvegi verði tekið upp að nýju.