Máfar hafa borið mikið af fræjum jurta til Surtseyjar og þeir hafa líka séð um að bera á graslendi sem þar hefur myndast.
Stakkaskipti urðu í Surtsey upp úr 1985 þegar máfar tóku að verpa þar í meiri mæli en áður. Borgþór Magnússon vistfræðingur segir að eftir það hafi plöntum tekið að fjölga hratt og gróðurinn þést mikið í máfavarpinu, þökk sé driti máfanna og fæðuleifum.
Nú er kominn vísir að mjög þéttu graslendi í Surtsey. „Þetta er eins og frjósömustu tún sem borið er á uppi á landi. Þarna vex mjög þéttur og kraftmikill gróður, en það eru fáar tegundir sem taka hreinlega yfir. Þar á meðal er túnvingull,“ segir Borgþór í viðtali um gróðurfarið í Surtsey í Morgunblaðinu í dag.