Kallaði í skelfingu á dóttur sína

Þegar Ólafur leit fram á gang stóð móðirin í dyragættinni …
Þegar Ólafur leit fram á gang stóð móðirin í dyragættinni á íbúð sinni og kallaði á dóttur sína sem var enn inni í brennandi íbúðinni. mbl.is/Rax

„Ég heyrði strax og ég vaknaði að það ríkti skelfing í íbúðinni, enda var skelfilegt að upplifa þetta,“ segir Ólafur Snævar Ögmundsson vélstjóri sem varð vitni að því þegar nágrannar hans börðust við að komast út úr brennandi íbúð við Írabakka í Breiðholti í nótt.

Ólafur býr ásamt konu sinni í íbúð sem er við hliðina á íbúðinni þar sem eldurinn kviknaði.

Stóð í dyragættinni og kallaði á dóttur sína

„Við vöknuðum við hróp og köll á hjálp,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is. „Það búa mæðgur í íbúðinni og þær voru að kalla hvor á aðra. Við vöknuðum við þetta og opnuðum fram. Þá stóð móðirin í dyragættinni og alelda var þar fyrir innan. Hún var að hrópa á dóttur sína sem var enn inni í íbúðinni.

Ég reyndi að komast inn til hennar, en það var ekki möguleiki því það var svo mikill eldur. Ég fór því út á svalir og klifraði yfir á svalirnar hjá þeim. Það var dálítið op á svaladyrunum og ég náði að opna. Ég vafði handklæði um andlitið, en ég komst ekki nema inn í miðja íbúð, en þar var allt svart af reyk. Mjög mikill eldur var í forstofunni. Ég réð ekkert við þetta, en þá var slökkviliðið að koma.

Það var lán í ólán að slökkviliðið var uppi í Efra-Breiðholti að slökkva eld í verslun og þeir voru komnir til okkar á þremur mínútum.

Ég fór því til baka í mína íbúð. Slökkviliðið var búið að fara út með konuna mína og mæðgurnar líka. Þá hafði, eftir því sem konan mín segir, dóttirin einhvern veginn komist í gegnum eldhafið og út. Ég skil hreinlega ekki hvernig henni tókst það. Hún dró síðan móður sína lengra fram á ganginn. Stúlkan, sem er aðeins 13 ára gömul, sýndi alveg ótrúlega hörku og dugnað.“

Ólafur sagði að móðirin væri meira slösuð en dóttirin. „Það sá verulega á henni. Stelpan virtist hins vegar vera við góða meðvitund og ósærð, en með mikla reykeitrun. Mér finnst það hins vegar ganga kraftaverki næst að stúlkan hafi komist út. Þetta er greinilega mjög klár stúlka.“

Ólafur var ásamt konu sinni og mæðgunum fluttur á Landspítala, en fékk að fara heim í morgun að lokinni skoðun. Konan hans er hins vegar enn á spítalanum, en hún fékk reykeitrun. Ólafur sagðist ekki vita um líðan mæðgnanna.

Ólafur klifraði yfir á svalir til mæðgnanna og reyndi þannig …
Ólafur klifraði yfir á svalir til mæðgnanna og reyndi þannig að bjarga dótturinni út. mbl.is/Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert