„Það er allt farið“

Piotr Jakuubek hefur á átta árum náð að byggja upp …
Piotr Jakuubek hefur á átta árum náð að byggja upp fjölskyldufyrirtækið Mini Market, ásamt konu sinni Agnieszka Jakubek. mbl.is/Rax

„Það er allt farið,“ segir Piotr Jakubek, sem á og rekur matvöruverslunina Mini Market í Drafnarfelli í Breiðholti, en tugmilljóna tjón varð þegar eldur kom upp í versluninni í nótt.

Piotr hefur rekið verslunina ásamt konu sinni, Agnieszku Jakubek, í rúmlega átta ár. Um er að ræða fjölskyldufyrirtæki sem þau hafa lagt allt sitt í.

„Við vorum búin að fylla verslunina af vörum því það er jafnan mikil velta í desember. Nú er þetta allt farið og alls óvíst hvort við náum að opna aftur fyrir jól,“ segir Piotr.

Piotr og Agnieszka voru sofandi heima hjá sér þegar þau fengu símhringingu frá öryggisfyrirtæki um að verslunin væri að brenna. Þau flýttu sér á staðinn. Þá voru slökkvilið og lögregla komin og slökkvistarf í fullum gangi. Verslunin var full af reyk og mikill hiti. Piotr segir að slökkviliðið hafi verið fljótt að slökkva eldinn, en tjónið sé mikið af völdum reyks og hita.

Átti að endurmeta tryggingar í janúar

Ljóst þykir að eldurinn hefur komið upp við hurð sem snýr út í port við verslunina. Eldsupptök eru ekki ljós, en rannsókn lögreglu miðar m.a. að því að rannsaka hvort kveiktur hafi verið eldur við hurðina.

Piotr og Agnieszka leigja húsnæðið. Það er tryggt og lagerinn er líka tryggður, en Piotr óttast að hann sé vantryggður. „Ég hafði samband við tryggingafélagið í lok síðasta mánaðar og þeir töluðu um að koma og meta verslunina upp á nýtt í byrjun janúar.“

Stuttu eftir að slökkviliðinu hafði tekist að slökkva eldinn í Mini Market kom tilkynning um eld í íbúð í Írabakka í Breiðholti. Allir slökkvibílar nema einn voru því sendir í snarhasti þangað, enda var fólk inni í brennandi íbúðinni.

Allt sem er í versluninni er ónýtt.
Allt sem er í versluninni er ónýtt. mbl.is/Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert