Þrír íbúar hafa verið fluttir á slysadeild eftir að eldur kom upp í íbúð í Írabakka 30 nú á fimmta tímanum. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu er mikill reykur í íbúðinni og er allt tiltækt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins á staðnum. Þetta er annar eldsvoðinn í Breiðholtinu á rúmri klukkustund í nótt.
Á fjórða tímanum var tilkynnt um eld í versluninni Mini Market í Eddufelli og var allt tiltækt slökkvilið sent þangað. Greiðlega gekk að slökkva eldinn, en tilkynnt var um eldinn klukkan 3:41 og var búið að slökkva hann klukkan 4:12. Miklar skemmdir eru á húsnæðinu vegna reyks. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er málið í rannsókn en ekki liggja fyrir upplýsingar um tjón.
Þaðan fór slökkviliðið beint í útkall í Írabakka vegna elds í íbúð í fjölbýlishúsi en það útkall kom klukkan 4:44. . Þar er mikill reykur og slökkviliðið enn að störfum. Tveir strætisvagnar hafa verið fengnir á staðinn fyrir íbúa.