Tveir eru á gjörgæsludeild Landspítalans eftir eldsvoða í fjölbýlishúsi við Írabakka 30 í nótt. Samkvæmt upplýsingum frá lækni er annar þeirra í öndunarvél en ekki eru gefnar frekari upplýsingar um líðan þeirra að svo stöddu.
Mikill viðbúnaður var hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í nótt vegna eldsvoðans en mikill reykur var í stigagangi hússins þegar slökkviliðið kom á staðinn. Fjórir voru fluttir á sjúkrahús bæði vegna brunasára og gruns um reykeitrun. Kona var strax flutt á gjörgæslu og á sjöunda tímanum var annar fluttur af slysadeild yfir á gjörgæslu.
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu er störfum lokið í Írabakka en lögregla er enn að rannsaka eldsupptök. Vitað er að eldurinn kom upp í íbúð í húsinu en ekki er vitað um upptök.
Allir íbúar í sama stigagangi og eldurinn kom upp fengu skjól í tveimur strætisvögnum og veitti Rauði krossinn þeim áfallahjálp. Þeir hafa nú fengið að snúa aftur til síns heima.