Aðalmeðferð í máli þriggja Íslendinga sem dönsk yfirvöld ákærðu í síðasta mánuði fyrir fíkniefnasmygl og brot gegn almennri hegningarlöggjöf hefst 25. febrúar nk. fyrir héraðsdómi í Kaupmannahöfn. Þetta var ákveðið við fyrirtöku málsins sl. fimmtudag.
Auk Íslendinganna er einn pólskur karlmaður ákærður.
Allir mennirnir eru ákærðir fyrir að hafa hafa áætlað að smygla um einu kílói af kókaíni til Íslands. Einn af íslensku sakborningunum er síðan ákærður fyrir að hafa haft í sínum fórum 11,3 kíló af e-töflum og lítilræði af sterum.
Fram kemur í ákærunni að tveir Íslendinganna auk Pólverjans hafi sett sig í samband við þriðja Íslendinginn til að kaupa a.m.k. eitt kíló af kókaíni og hafi staðið til að setja fíkniefnin í sölu og dreifingu og smygla þeim til Íslands. Þetta gerðist á tímabilinu 9.-14. nóvember í fyrra í Kaupmannahöfn. Að kvöldi 14. nóvember fengu þremenningarnir afhent 485 g af kókaíni og til stóð að afhenda afganginn daginn eftir. Það gerðist hins vegar ekki þar sem danska lögreglan handtók pólska manninn og einn af Íslendingunum.
Hinn 15. nóvember fundust svo 11,3 kíló af e-töflum (yfir 40.000 töflur) við húsleit í íbúð Íslendingsins sem var handtekinn ásamt Pólverjanum. Ákæruvaldið segir að það hafi átt að setja e-töflurnar í sölu og dreifingu.
Ákæruvaldið í Kaupmannahöfn segir í svari við fyrirspurn mbl.is að búið sé að ákveða hvenær aðalmeðferðin fari fram. Hún hefst 25. febrúar og er stefnt að því að ljúka henni 3. apríl, sem yrði þá sjötti og seinasti dagur aðalmeðferðar.
Næsta fyrirtaka í málinu fer fram 12. desember en þá mun dómari úrskurða hvort mennirnir þurfa að sitja í gæsluvarðhaldi þar til búið er að kveða upp dóm í málinu.