Barnsmóðir Stefáns Loga lét sig hverfa

Stefán Blackburn, Stefán Logi Sívarsson og Hinrik Geir Helgason.
Stefán Blackburn, Stefán Logi Sívarsson og Hinrik Geir Helgason.

Barnsmóðir Stefáns Loga Sívarssonar kom fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun þegar aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn honum, Stefáni Blackburn og þremur öðrum hélt áfram. Konan lýsti ofbeldi Stefáns Loga gegn sér og sagði að hann hefði hótað að drepa dóttur þeirra.

Stefán Logi er meðal annars ákærður í málinu fyrir að hafa vafið belti af blaðslopp um háls konunnar og dregið hana um íbúð hennar á beltinu þannig að henni lá við köfnun. Hann losaði takið þegar hún var að kafna en herti svo aftur að. „Hann leyfði mér að anda í smá-tíma, þegar hann hélt að ég væri að deyja. Svo hélt hann áfram. Ég grátbað hann um að fara en hann fór ekki. [...] Ég var mjög hrædd við hann. Hann hótaði að drepa hana líka á meðan hann var að reyna drepa mig,“ sagði konan og átti þar við að Stefán Logi hefði hótað því að drepa barnunga dóttur þeirra.

Spurð um það hvers vegna Stefán Logi beitti hana ofbeldi sagði konan: „Þetta var í sambandi við mann sem ég hitti og talaði við. Hann var ofboðslega afbrýðisamur.“

Konan sleit sambandinu við Stefán Loga í desember 2012, en árásin var gerð í október. Hún segist enn vera mjög hrædd. „Eftir þessa árás lét hann mig ekki í friði og eftir desember lét ég mig hverfa. Ég skipti um númer og ætlaði að reyna halda lífinu áfram. [...] Ég er hrædd um að vinir hans ætli sér að hefna hans. Ég vakna upp á nóttunni og dóttur minni finnst ekki gott að sofa heima hjá sér. Hún finnur fyrir óöryggi.“

Foreldrar konunnar og yngri systir komu einnig fyrir dóminn en Stefán Logi er ákærður fyrir að hafa ruðst inn á heimili þeirra í tvígang, hótað föður barnsmóður sinnar og beitt hann ofbeldi. „Stefán Logi hefur aldrei verið velkominn inn á heimilið í þessi fimm ár sem við höfum þekkt hann,“ sagði móðir konunnar. „Maðurinn minn hefur aldrei verið sáttur við Stefán. Hann hefur aldrei verið velkominn á heimilið. [...] Hann var með þetta gifs sitt, hann var með jónu í hendinni - alla vega ekki sígarettu - og labbar ógnandi að manninum mínum. Og það kom til handalögmála. Þetta var mjög ógnandi hegðun.“

Stefán Logi neitar sök.

Aðalmeðferðin heldur áfram í dag en til stóð að henni lyki á morgun. Það verður þó að teljast ólíklegt enda tvö vitni stödd í útlöndum sem eiga að koma fyrir dóminn. Raunar næst ekki í annað þeirra, húsráðandann á Stokkseyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert