Skammarlega lágar bætur

Illugi Gunnarsson og Gunnar Bragi Sveinsson
Illugi Gunnarsson og Gunnar Bragi Sveinsson mbl.is/Ómar Óskarsson

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segist vera þeirrar skoðunar að þær bætur sem kaþólska kirkjan hefur greitt til þeirra sem urðu fyrir ofbeldi í Landakotsskóla séu „skammarlega lágar“. Hann skoraði á kaþólsku kirkjuna að endurskoða ákvörðun um greiðslu bóta.

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, tók þetta mál upp á Alþingi í dag. Hann gagnrýndi þær bætur sem kaþólska kirkjan hefur greitt til þeirra sem beitt voru ofbeldi. „Nú hefur komið á daginn að svo smá er hún í sér að hún rís engan veginn undir ábyrgð, því upphæðirnar sem fórnarlömbum ofbeldisins eru boðnar munu aldrei flokkast undir sanngirnisbætur.“

Ögmundur sagði að stjórnvöld yrðu að velta fyrir sér hvort þau börn sem voru í þessum skóla ættu ekki að njóta jafnræðis við önnur börn sem voru í skóla á þessum tíma.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sagðist geta tekið undir með Ögmundi. „Þær bætur sem kaþólska kirkjan samþykkti að greiða út til þeirra einstaklinga sem urðu fyrir þessu ofbeldi eru skammarlega lágar. Þær eru allt of lágar og mér finnst engin sanngirni í þessum sanngirnisbótum. Mér finnst að það væri bragur í því [ef] kaþólska kirkjan endurskoðaði þetta mál og kæmi á móts við þessa einstaklinga með sanngjarnari hætti.“

Illugi sagði að stjórnvöld þyrftu að skoða þetta mál og velta fyrir sér hvernig þau gætu komið að málinu. Hann sagði koma til greina að málið yrði meðhöndlað með sambærilegum hætti og mál þeirra sem fengið hafa sanngirnisbætur frá ríkinu. Það þyrfti hins vegar að skoða málið með tilliti til mála sem kynnu að fylgja í kjölfarið, því hætt væri við að þetta yrði ekki síðasta málið af þessu tagi sem upp kæmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert