Tekjulægstu barnafjölskyldurnar verða verst úti við þær breytingar sem eru fyrirhugaðar á barnabótakerfinu, segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.
Nú hefur ríkisstjórnin gefið það út að lækka eigi barnabætur á næsta ári. Þótt útfærsla þess sé ekki full ljós hefur fjármálaráðherra talað um að lækka hámarksbætur og heildarframlög til barnabóta verða lækkuð um 300 milljónir.
„Barnabætur eru hugsaðar sem hluti af tekjujöfnunartækjum hins opinbera og eðli málsins samkvæmt eru það þess vegna tekjulægstu barnafjölskyldurnar sem eiga að njóta barnabótanna. Það er einmitt sá hópur sem verður verst úti við þessar breytingar. Ungar barnafjölskyldur og einstæðir foreldrar eru líka fjölmennur hópur á leigumarkaði. Sá hópur stendur utan við boðaðar skuldaniðurfærslu aðgerðir vegna húsnæðislána og fær nú skertar barnabætur í ofan á lag. Þessi aðgerð verður því til þess að auka mjög á ójöfnuð í samfélaginu og kemur harðast niðri á þeim sem síst mega við því, fáttækustu barnafjölskyldunum,“ segir Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB, í tilkynningu.
Þar til undir lok síðasta kjörtímabils höfðu upphæðir barnabóta staðið í stað frá 2009. Sú hækkun á barnabótum sem síðasta ríkisstjórn kynnti á síðasta ári dugði samt sem áður ekki til þess að barnabætur héldu verðgildi sínu ef miðað er við árið 2007, segir í tilkynningu frá BSRB.
„Frá árinu 2007 og fram til dagsins í dag hefur verðlag hækkað umtalsvert umfram hækkun barnabóta. Bæturnar hafi þess vegna lækkað að raunvirði og kaupmáttur barnabóta hefur dregist talsvert saman á þessum tíma. Ef bæturnar myndu haldast óbreyttar á næsta ári hafa þær hækkað um 20% á árununum 2007-2014. Á sama tíma hefur verðlag hækkað um 54,7%, að teknu tilliti til spár Hagstofunnar um verbólgu fyrir árin 2013 og 14 (3,5% árið 2013 og 3% árið 2014).
Þannig eru hækkanir barnabóta langt frá því að halda í við almenna hækkun verðlags. Með sanni má því segja að að kaupmáttur barnabóta hafi lækkað um 22,5% á árunum 2007-2014. Samkvæmt því þyrftu barnabætur að hækka um 29% til þess að halda verðgildi sínu frá því árið 2007. En þess í stað á að skerða þær enn frekar sem kemur harðast niðri á tekjulágum barnafjölskyldum.
Skerðingarmörk barnabóta lægri en lágmarkslaun Skerðingarmörk barnabóta eru nú 200 þúsund krónur á mánuði hjá einstaklingi en 400.000 krónur hjá sambúðarfólki. Lágmarkslaun nú eru hins vegar 204.000 krónur á mánuði þannig að jafnvel þeir sem eru á lágmarkslaunum og hafa engar tekjur umfram þau geta ekki notið óskertra barnabóta,“ segir í tilkynningu.
„Þessar staðreyndir sýna glöggt fram á að heildarendurskoðun á barnabótakerfinu er þörf. Það getur ekki talist eðlilegt að aðeins þeir sem eru undir lágmarkstekjum fái fullar barnabætur. Það þarf að endurskoða barnabæturnar svo þær geti þjónað tilgangi sínum með betri og skilvirkari hætti en nú er,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.