Vilja handtökumálið fyrir Hæstarétt

Handtakan á Laugavegi.
Handtakan á Laugavegi.

Landssamband lögreglumanna hyggst fylgja eftir máli lögreglumanns, sem dæmdur var fyrir að fara offari við handtöku á Laugavegi í sumar. Sambandið vill að handtökuaðferðin sem beitt var verði skoðuð af Ríkislögreglustjóra og Lögregluskólanum.

„Við erum verulega hugsi yfir þessu,“ segir Snorri Magnússon formaður Landssambands lögreglumanna, um dóminn sem féll á föstudaginn var. Stjórn sambandsins fundaði um dóminn í gær.

Má ekki vera vafi um aðferðir lögreglu

Lögreglumaðurinn var dæmdur til að greiða 300.000 kr sekt fyrir að hafa farið offari við handtökuna og beitt meira valdi en nauðsyn bar til. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir líkamsárás í opinberu starfi. Maðurinn hefur í samráði við lögmann sinn ákveðið að sækja um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar.

Snorri segir brýnt að niðurstaða fáist í málið á æðsta dómsstigi. „Það getur ekki og má ekki vera vafi um þær aðferðir sem lögegla beitir við handtöku á fólki. Því lögreglan hefur þessar lögmætu valdbeitingarheimildir, og það er vandséð miðað við dómniðurstöðuna hvort og hvernig öðrum aðferðum hefði átt að vera beitt. Það er ekki tekið fram í dómsorði.“

Aðspurður hvort talið sé tilefni til að hætta beitingu þessarar tilteknu handtökuaðferðar segist Snorri ekki vilja taka svo djúpt í árinni heldur frekar reyna að fá það fram hvort hugsanlega hefði verið hægt að beita öðrum og mildari aðferðum við þetta tilefni.

Fær hann að snúa aftur til vinnu?

Lögreglumaðurinn var leystur frá störfum strax í kjölfar atviksins í júlí, eftir að upptaka af handtökunni var sett á netið. Snorri segist ekki hafa heyrt af eða á um hvort hann verði kallaður aftur til vinnu. 

Í desember 2008 sakfelldi Héraðsdómur Reykjavíkur lögreglumann fyrir líkamsárás, eftir að hann var kallaður á vettvang þjófnaðar í verslun 10-11 og greip meintan þjóf hálstaki áður en hann handtók hann. Myndbandsupptaka úr versluninni sýndi aðdragandann og átökin.

Dómurinn féllst á að maðurinn hefði gætt lögmætra aðferða við handtöku, líkt og í máli lögreglumannsins á Laugavegi en sagði hann sekan um líkamsárás. Lögreglumaðurinn í 10-11 málunni var dæmdur til að greiða 120.000 krónur í sekt og fórnarlambi sínu 60.000 krónur í miskabætur, en fékk að snúa aftur til vinnu.

Snorri Magnússon er formaður Landssambands lögreglumanna.
Snorri Magnússon er formaður Landssambands lögreglumanna.
Skjáskot úr atvikinu í 10-11 sem lögreglumaður hlaut dóm fyrir …
Skjáskot úr atvikinu í 10-11 sem lögreglumaður hlaut dóm fyrir árið 2008.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka