„Ætlaði að stinga mig með risa hníf“

Stefán Logi Sívarsson.
Stefán Logi Sívarsson.

Þar sem nú tekur við níu daga hlé á aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Stefáni Loga Sívarssyni, Stefáni Blackburn og þremur öðrum er ekki úr vegi að líta yfir farinn veg og skoða nokkur ummæli sem féllu í skýrslutökum yfir sakborningum í málinu.

Í málinu eru þeir Stefán Logi og Stefán Blackburn ákærðir en einnig Davíð Freyr Magnússon, Hinrik Geir Helgason og Gísli Þór Gunnarsson. Þeim er gefið að sök að hafa svipt tvo menn frelsi sínu og beitt þá ítrekuðu ofbeldi, þó þáttur hvers og eins sé ekki endilega sá sami.

Sakborningar gáfu skýrslu á mánudag og hóf Davíð Freyr leik:

Saksóknari: „Sviptuð þið hann frelsi?“

Davíð: „Honum var sagt að koma með okkur.“

Saksóknari: Beittuð þið hann ofbeldi?

Davíð: „Ég man það óljóst.“

Í kjölfarið hafnaði hann því alfarið að beitt hefði verið vopnum þegar annar maðurinn var sóttur á heimili hans um kl. 00.30 aðfaranótt 1. júlí. 

Saksóknari: „Hvernig komust þið inn?“

Davíð: „Dingluðum bjöllunni. Ég var mökkdópaður á því. Ætli við höfum ekki bara labbað inn.“

Saksóknari: „Var tekið á honum?“

Davíð: „Nei, hann kom bara með okkur.“

Saksóknari: „Sagði hann bara já?“

Davíð: „Hann kom bara með.“

Spurður hvort manninum hafi kannski stafað ógn af því að þarna voru komnir fjórir menn sem hann þekkti ekki inn á heimilið sem kröfðu hann um að koma með sér sagði Davíð: „Honum hefur kannski stafað ógn af þessu.“

„Ég beitti hann engu ofbeldi“

Davíð var einnig spurður að því hvað gerðist eftir að maðurinn fór með þeim og farið var með hann í íbúð í Hafnarfirði.

Saksóknari: „Hvað gerðist þar?“

Davíð: „Hann var bundinn og eitthvað barinn.“

Saksóknari: „Hvernig bundinn?“

Davíð: „Með hendur og fætur fyrir aftan bak.“

Saksóknari: „Hver batt hann?“

Davíð: „Ég kýs að tjá mig ekki um það.“

Þegar Davíð var spurður hvort hann hefði sprautað manninn með lyfi í rassinn sagði hann: „Ég beitti hann engu ofbeldi.“

Daginn eftir var ákveðið að fara með manninn á Stokkseyri og sagði Davíð að hann hefði komið með þá tillögu. 

Saksóknari: „Hvernig var ástandið á honum?“

Davíð: „Hann var með smá rifu á vörinni.“

Saksóknari: „Kannastu við að hafa saumað hana?“

Davíð: „Já, hún lafði bara vörin og þetta var það eina sem mér datt í hug. Ég var svo lyfjaður á því.“

Saksóknari: „Var rætt um að klippa hana af?“

Davíð: „Já, en ég stakk upp á því að hún yrði saumuð.“

Dómari: „Af hverju var hún svona rifin?“

Davíð: „Hann hefur verið barinn.“

Dómari: „Og þú varst öruggur að sauma?“

Davíð: „Ótrúlegt en satt, þá gekk það vel.“

Nei, nei nei

Verjandi Stefáns Loga: „Nú kom fram að [maðurinn] hefði verið bundinn. Hver batt hann?“

Davíð: „Ég kýs að tjá mig ekki um það.“

Verjandi SL: „Var það Stefán Logi?“

Davíð: „Nei.“

Verjandi SL: „Gaf hann fyrirmæli um það?“

Davíð: „Nei.“

Verjandi SL: „Var hann á staðnum?“

Davíð: „Nei, ekki svo ég viti.“

Þegar Davíð svar spurður að því hvort hann hefði sprautað rakspíra á kynfæri mannsins og kveikt í neitaði hann því og sagði að hann myndi muna eftir því ef svo væri. Davíð var kíminn á svip þegar hann svaraði þessum spurningum.

Dómari: „Það er algjörlega óviðeigandi að þú skulir vera hlæjandi yfir þessu.“

Davíð: „Mér finnst þetta bara svo absúrd.“

Ég veit ekkert um þetta mál

Sakborningar tjáðu sig mismikið þegar þeir gáfu skýrslu. Sökum þess að Hinrik Geir og Gísli Þór neituðu að mestu leyti að tjá sig eða sögðust ekki muna atburði er fátt að rifja upp í framburði þeirra.

Á eftir þeim settist fyrir framan dómara Stefán Logi Sívarsson og jafnvel þó hann segðist ekkert vita um málið eða bæri við minnisleysi verður ekki komist hjá því að nefna nokkrar spurningar og svör.

Saksóknari: „Varst þú ekki var við að [X] yrði fyrir ofbeldi?“

Stefán Logi: „Nei. Ég var handleggsbrotinn á báðum höndum. Ég var ekki fær um að beita nokkurn mann ofbeldi.“

Saksóknari: „Manstu ekkert af því sem kemur fram í ákæru?“

Stefán Logi: „Nei. Það er margt sem ég vil segja en það er lögfræðingur minn sem kemur því til skila.“

Saksóknari: „Kannastu við að hafa verið þarna að kvöldi sunnudags [í samkvæminu í Breiðholti 30. júní]?“

Stefán Logi: „Það getur vel verið að ég hafi verið þarna en ég kannast ekki við þetta mál.“

Saksóknari: „Þannig þú hafnar öllu?“

Stefán Logi: „Eðlilega. Þetta eru fáránlegar lýsingar. Auðvitað hafna ég öllu.“

Saksóknari: „Af hverju var [X] sóttur? Var það vegna þess að hann átti vingott við barnsmóður þína?“

Stefán Logi: „Nei, ég vissi ekkert um það. Var hann sóttur? Það kemur mér ekkert við. Ég var ekki búinn að vera með henni í heilt ár [barnsmóðurinni] og kominn með aðrar kærustur. Hún vildi ekki einu sinni fá jólagjafir frá mér eða afmælisgjafir.“

Þegar kom að spurningum um þau ákæruatriði sem snúa að húsbroti á heimili foreldra barnsmóðurinnar og árás á föður hennar var minni Stefáns Loga þó töluvert betra.

Verjandi SL: „Hvað gerðist svo?“

Stefán Logi: „Ég fór. Svo kemur hann [faðir barnsmóður hans] hlaupandi á eftir mér og reynir að stinga mig. Hann hefur oft ráðist á mig áður. Hann réðst á mig uppi á fæðingadeild. Ég myndi aldrei ráðast á hann. Aldrei ráðast á afa dóttur minnar.“

Verjandi SL: „Stóð þér ógn af föður hennar?“

Stefán Logi: „Já, hann ætlaði að stinga mig með risa hníf.“

Verjandi SL: „Er hann rammur af afli?“

Stefán Logi: „Hann er gamall Evrópumeistari í Júdó.“

„Ég er bara ég“

Vilhjálmur hélt áfram að spyrja skjólstæðing sinn út í meinta frelsissviptingu mannanna tveggja. 

Verjandi SL: „Gafst þú fyrirmæli um að svipta [X] frelsi?“

Stefán Logi: „Nei, það gerði ég ekki.“

Verjandi SL: „Hafðir þú aðkomu að því máli?“

Stefán Logi: „Nei.“

Verjandi SL: „Fórstu með að sækja hann?“

Stefán Logi: „Nei.“

Verjandi SL: „Gafstu fyrirmæli um að fara með hann?“

Stefán Logi: „Nei. Ég veit ekki hvernig ég að geta gefið fyrirmæli eins og konungur. Ég er bara ég.“

Dómari: „Þeir eru þá að bera þig röngum sökum. Hvers vegna?“

Stefán Logi: „Ég hef ekki pælt þannig í því. Maður er reiður og þannig. Eina sem mér dettur í hug, og sérstaklega með [X] er að hann sé á eftir einhverjum peningum. [...] Ég á ekkert sókött við þessa menn og vil ekki vera í kringum þá.“

Þá er ekki ástæða til að rifja upp framburð Stefáns Blackburn en hann bar við algjört minnisleysi. 

Umfjöllun um skýrslutökur yfir fórnarlömbunum tveimur má finna hér. 

Eins og áður hefur komið fram heldur málið áfram 20. desember næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert