„Mjög erfitt að taka vitnaskýrslu af mér“

Dómsalur í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Dómsalur í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er mjög erfitt að taka vitnaskýrslu af mér,“ sagði ungur maður sem kom fyrir dóm og gaf skýrslu í máli ákæruvaldsins gegn Stefáni Loga Sívarssyni, Stefáni Blackburn og þremur öðrum. Maðurinn bar við að hafa lengi verið í mjög annarlegu ástandi. „Ég er eiginlega bara búinn að vera í hálfgerðu „blakkáti“.“

Maðurinn var staddur í samkvæmi í íbúð í Breiðholti 30. júní síðastliðinn en þar frétti Stefán Logi af því að barnsmóðir hans og fv. kærasta hefði hitt annan karlmann. Og samkvæmt ákæru hófst ofbeldið þar. 

Búnir að vera á „djamminu“ í viku

Ung kona sem einnig var stödd í nefndu samkvæmi kom fyrir dóminn í gær. „Þeir fóru að rífast um þessa stelpu og þennan vin hans sem átti að hafa sofið hjá henni,“ sagði hún um upphafið að málinu og ástæðu þess að ofbeldið hófst. „Það voru allir búnir að vera á djamminu í viku. Hann [Stefán Logi] var bara að tuska hann til, aðeins að taka í hann.“

Þar er átt við karlmann sem var í samkvæminu á sunnudagskvöldi og greindi frá því að annar maður, kunningi hans, hefði sofið hjá barnsmóður Stefáns Loga. Var sendiboðinn sviptur frelsi og beittur ofbeldi vegna þess að Stefán Logi taldi að hann hefði átt að vera búinn að greina honum frá þessu áður.

Óeirðir og allt í háaloft

Ungi maðurinn sem kom fyrir dóminn í morgun gat í engu svarað spurningum saksóknara í málinu. Hann sagðist muna mjög takmarkað eftir þessu tímabili í lífi sínu og sagðist ekki muna eftir neinum líkamsmeiðingum sem þar fóru fram, eða hversu lengi hann hefði verið í íbúðinni.

Saksóknari reyndi að aðstoða vitnið eftir fremsta megni við að rifja atvik upp, til dæmis með því að vitna í framburð þess hjá lögreglu frá 17. júlí. Þar hafi hann sagt að Stefán Logi hefði verið orðinn virkilega pirraður og hafi Stefán Blackburn þá einnig farið að æsa sig, enda hafi hann litið upp til Stefáns Loga. Þá komu upp óeirðir og allt fór í háaloft. Hafi það endað með því að sendiboðinn hafi verið tuskaður til.

Maðurinn kannaðist við að hafa gefið skýrslu hjá lögreglu en sagði einnig að allt hefði verið „í rugli í hausnum á mér“. Saksóknari sagði þá að maðurinn hefði sagt að greinilegt hefði verið þegar þeir hefðu verið búnir að finna manninn og farið af stað að leita að honum.

Spurður út í þetta sagði maðurinn að lögregla hefði sagt sér þetta.

Gafst saksóknari fljótlega upp á að spyrja manninn eftir þetta og enginn verjenda í málinu lagði fyrir hann spurningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert