Fjárlaganefnd hefur nú farið yfir fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár og hefur málið verið afgreitt úr nefndinni. Þetta staðfesti Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, á kvöldfundi Alþingis sem nú stendur yfir.
Nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa mótmælt þessu við aðra umræðu um fjáraukalög þessa árs í kvöld. Sagði Svandís Svavarsdóttir, þingkona Vinstri grænna, meðal annars að þetta gengi í berhögg við þingskaparlög, að málið hefði verið afgreitt án nefndarálits.
Að sögn Vigdísar var fjárlagafrumvarpið unnið í mikilli sátt og þar væru margar breytingatillögur til hagsbóta fyrir land og þjóð. Hún sagðist þó taka fram að nú væru fjáraukalög á dagskrá, ekki fjárlög, og krafðist hún þess að forseti Alþingis úrskurðaði um það hvort fjárlaganefnd hafi í raun brotið þingskapalög.
Katrín Júlíusdóttir og Helgi Hjörvar, þingmenn Samfylkingarinnar, sögðust líta svo á að málið væri enn í fjárlaganefnd, þar sem ekki hafi verið gefið út nefndarálit.
Fundi Alþingis hefur nú verið frestað til klukkan 21.10.