„Við höfum verið á eftir með ýmsar greiðslur, bæði til birgja og ýmissa annarra,“ segir Guðjón Magnússon, formaður stjórnar hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar.
„Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjóra erum við eitthvað á eftir með staðgreiðslu,“ en mbl.is greindi frá því fyrr í dag að hjúkrunarheimilið hafi ekki staðið í skilum með greiðslur lögboðinna lífeyrissjóðsiðgjalda.
„Við erum að reyna a leysa þessi mál, búin að vera með það lengi í undirbúningi og höfum látið yfirvöld vita, bæði hér í bæjarstjórn [Kópavogs] og velferðarráðuneyti vita um okkar erfiðleika. Þeir hafa verið ljósir um langan tíma.“
Hvað hefur þá verið gert við þessi gjöld sem hefur ekki verið skilað til ríkisins? Hefur heimilið verið rekið fyrir þá fjármuni?
„Já,“ svarar Guðjón. „Það er ekki verið að taka þau til annars.“
Samræmist þetta [að nota lífeyrissjóðsiðgjöld til rekstrar hjúkrunarheimilisins] lögum?
„Það gerir það ekki, nei,“ segir Guðjón. „Við skuldum en eigum fyrir þeim, við eigum þessa fasteign sem við erum í. Starfsfólk Sunnuhlíðar er eins og fram hefur komið á mbl.is meðvitað um stöðuna, en allur gangur er á því hvort heimilisfólk hafi vitað af stöðunni.
Ástæðuna fyrir vanda Sunnuhlíðar segir hann fyrst og fremst vera þá að daggjöld dugi ekki til að reka hjúkrunarheimilið, en Sunnuhlíð er að sögn Guðjóns fyrsta hjúkrunarheimilið til að taka til starfa á Íslandi sem hjúkrunarheimili, en ekki dvalarheimili.
Guðjón segir heimilisfólk á Sunnuhlíð ekki eiga að finna fyrir þeim vanda sem hjúkrunarheimilið er í. Til skamms tíma eigi þetta því ekki að hafa afleiðingar fyrir starfsfólk og heimilisfólk. „Heimilisfólk finnur ekki fyrir þessu,“ segir Guðjón. „Við höldum uppi allri þjónustu, við drógum verulega úr henni fyrir nokkrum árum þegar við hófum aðgerðir í niðurskurði. Það er bara ekki nægt til.“
„Ábyrgðarleysi okkar er kannski það að við hefðum átt að minnka þjónustuna, sem hefði komið niður á okkar skjólstæðingum,“ segir Guðjón, og jánkar því að lífeyrissjóðir hafi hafið innheimtu iðgjaldanna. „Við erum milli steins og sleggju. Starfsólkið hefur sýnt mikla þolinmæði og dugnað í þessum erfiðleikum sem það veit um. Við höfum haldið starfsmannafundi og höldum annan eftir helgi.“
Hann segir fyrirtækið róa lífróður til að halda starfseminni áfram, og hafi fundað með velferðarráðuneytinu.
Þannig að velferðarráðherra veit hvernig staðan er?
„Heldur betur, bæði núverandi og fyrrverandi. Þeir vita nákvæmlega hver staðan er. Þetta er komið að brúninni.“