ESB gerir Færeyingum nýtt tilboð

Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins.
Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins. mbl.is

„Við höfum lagt nýtt tilboð á borðið sem er mun betra en það sem við höfðum áður boðið Færeyingum,“ er haft eftir Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, á færeyska fréttavefnum Portal.fo í dag en Damanaki fundaði í gær og í dag með ráðamönnum í Færeyjum um makríldeiluna.

Haft var eftir Damanaki í gærkvöldi á fréttavefnum að góður möguleiki væri á samningum og að útlitið væri bjartara eftir fundi með færeyskum ráðamönnum. Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja, hafi ennfremur sagt að styttra væri á milli Færeyinga og Evrópusambandsins en áður, en tíminn til þess að semja væri naumur. Lögmaður Færeyja, Kaj Leo Johannesen, hafi gert Damanaki grein fyrir því að viðskiptaþvinganir sem sambandið greip til síðastliðið sumar gegn Færeyingum vegna síldveiða þeirra torveldi lausn makríldeilunnar. Ef Evrópusambandið felldi þær úr gildi og hætti hótunum um slíkt væri hann reiðubúinn að endurskoða afstöðu sína í makríldeilunni.

Veit ekki hver viðbrögð Norðmanna verða

Fram kemur á fréttavefnum að Vestergaard staðfesti að tilboð hafi verið lagt fram af hálfu Damanaki. Haft er ennfremur eftir honum að færeyska landsstjórnin muni nú fara yfir tilboðið. Þá segir í fréttinni að Evrópusambandið vænti þess að fá svar frá Færeyingum í þessari viku og því þurfi ráðamenn að hafa snarar hendur. Hvorki Damanaki né Vestergaard hafi hins vegar viljað tjá sig um innihald tilboðsins. Færeyski sjávarútvegsráðherrann hafi aðeins sagt að það væri áhugavert.

Damanaki lagði hins vegar áherslu á nauðsyn þess að ná samningum um makrílinn. „Okkur ber skylda til þess að ná samningum og vinna saman og það erum við að reyna,“ sagði hún. Ennfremur segir í fréttinni að spurning sé hvað norskum stjórnvöldum þyki um þróun mála í deilunni. Sjávarútvegsstjórinn hafi verið spurður að því og svarað:

„Ég hef fullt samráð við Norðmenn. Norska ríkisstjórnin veit um tilboðið og að það sé mun betra en það sem upphaflega var lagt fram. En hver viðbrögð þeirra verða get ég ekki sagt til um.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert