Starfsmaður á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð segir að þrátt fyrir að ekki hafi verið staðið við lífeyrisgreiðslur starfsmanna hafi það lítil áhrif á starfið. Fólk taki hverjum degi eins og hann birtist og er staðráðið í að láta stöðuna og vanefndir ekki hafa áhrif á starfið og íbúa heimilisins.
Um tveir mánuðir eru liðnir frá því að starfsmenn óskuðu eftir fundi með yfirstjórn heimilisins og fengu þá að vita um stöðu mála. Starfsmaðurinn, sem ekki vill láta nafn síns getið, segir að í raun sé ekki hægt að kvarta yfir því hvernig samskiptunum sé háttað af hálfu yfirmanna heimilisins sem hafi til þessa svarað þeim spurningum sem hafi vaknað.
Eins og fram kom á mbl.is í gær á hjúkrunarheimilið í verulegum rekstarvanda sem stjórnendur segja að sé tilkomin þar sem daggjöld dugi ekki til rekstrar. Því hafi lífeyrisgreiðslur starfsmanna verið notaðar í rekstri heimilisins og nú eru lífeyrisjóðir farnir að innheimta gjöldin.