Borgin ekki tilbúin til að styðja Eir

Hjúkrunarheimilið Eir að Fróðengi í Grafarvogi.
Hjúkrunarheimilið Eir að Fróðengi í Grafarvogi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Reykjavíkurborg hefur hafnað erindi frá forstjóra hjúkrunarheimilisins Eirar um að borgin leggi aukið fjármagn til Eirar. Í svarinu segir að borgin sé ekki tilbúin til að stíga slíkt skref meðan ríkið, sem ber ábyrgð á málaflokknum, hafni stuðningi.

Í bréfi forstjóra Eirar segir að hjúkrunarheimilið hafi tekið að sér að greiða að veðláni upp á 1,5 milljarða. Afborganir af því séu 87 milljónir á næsta ári. Farið er fram á að borgin veiti stuðning í því formi að greiða 56 milljónir á næsta ári.

Í svarbréfi borgarinnar segir að mikla óvissuþætti sé að finna í þeim áætlunum sem Eir byggi á, en áætlunin er unnin af KPMG.

„Ríkið ber ábyrgð á málaflokki aldraðra og hafa fyrirsvarsmenn Eirar leitað til heilbrigðisráðherra, félagsmálaráðherra og fjármála- og efnahagsmálaráðherra um stuðning. Heilbrigðis- og félagsmálaráðherrar hafa hafnað óskum um stuðning við Eir og sama gildir um Íbúðalánasjóð sem segir það óheimilt að lögum.

Eir hefur leitað með sama erindi til annarra stofnaðila sem eru VR, SÍBS, Efling, Mosfellsbær og fleiri aðilar en Framkvæmdasjóður aldraðra lagði málinu einnig lið á sínum tíma. Engin skuldbindandi fyrirheit liggja fyrir frá þessum aðilum.

Einnig hefur verið leitað til lífeyrissjóða sem lánað hafa Eir. Lífeyrissjóðirnir munu hugsanlega vera tilbúnir til að lækka vaxtakröfur að einhverju leyti á næsta ári.

Verði Reykjavíkurborg við beiðni Eirar og veitir vilyrði fyrir 40% af þeim 56 mkr sem óskað er eftir mun það út af fyrir sig ekki tryggja áframhaldandi óbreyttan rekstur. Með vísan til ofangreinds er það mat Reykjavíkurborgar að óeðlilegt sé að að ætla borginni
að leggja til aukið fjármagn til Eirar á meðan ríkið, sem ber ábyrgð á málaflokknum, hafnar stuðningi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert