Í stofnskrá hjúkrunarheimilisins Eirar er að finna sambærilegt ákvæði og er í stofnskrá Sunnuhlíðar og stjórnendur Sunnuhlíðar vísa til þegar þeir sögðu sig frá rekstrinum. Þeir hafa boðið Kópavogsbæ að taka yfir reksturinn.
Ákvæðið sem stjórnendur Sunnuhlíðar vísa í kveður á um að ef stjórn eða fulltrúaráð sjái sér ekki fært að reka heimilið skuli hún gefa Kópavogsbæ tækifæri til að taka yfir allan reksturinn. Ef sveitarfélagið hafni því falli hjúkrunarheimilið með öllum eignum til ríkisspítalanna.
Sambærilegt ákvæði er í stofnsamningi Eirar. Þar segir: „Telji fulltrúaráð Eirar sér ekki fært að annast rekstur stofnunarinnar eða hluta hennar áfram, skal hverjum aðila gefinn kostur á að taka við rekstrinum enda verði hlutverk og markmið stofnunarinnar óbreytt. Að þeim frágengnum fellur stofnunin með öllum eignum hennar til ríkisins, ef ekki er kveðið á um annað í sérstökum samningum, með þeirri kvöð að hún verði áfram nýtt í þágu sömu markmiða.“
Helgi Jóhannesson lögmaður, sem vinnur að því að koma á nauðasamningum á Eir, segir að þetta ákvæði hafi ekki verið virkjað. Hann segist ekki vita hvaða þýðingu þetta ákvæði hafi. Hann bendir á að Eir skuldi talsvert umfram virði eigna. „Ég er ekki viss um að þetta þýði að ríkið eða stofnaðilar þurfi að sætta sig við að taka við öllum skuldum sem sjálfseignastofnunin er búin að stofna til. Það er a.m.k. ekki hægt að túlka þetta ákvæði með þeim hætti að það sé hægt að útbúa einhvern óútfylltan tékka fyrir stofnaðila. Ef það væri raunin værum við með persónulega ábyrgð og hún er ekki fyrir hendi hjá sjálfseignastofnunum.“
Þess ber að geta að skuldir Eirar eru miklu meiri en skuldir Sunnuhlíðar. Eignir Sunnuhlíðar duga fyrir skuldum, en hins vegar duga tekjur ekki fyrir daglegum útgjöldum.
Helgi segir að kröfuhafar á Eir hafi frest til að lýsa kröfum fram til 27. desember. Greidd verði síðan atkvæði um nauðasamninga í byrjun janúar. 60% kröfuhafa þurfi að samþykkja nauðasamninga til að þeir öðlist gildi. Helgi segist ekki sjá annað en að ef nauðasamningum verði hafnað verði krafist gjaldþrots. Hann segir þó hugsanlegt að ákvæði 15. gr. stofnsamnings verði virkjað, en það verði væntanlega bara millileið sem tæplega nái að forða gjaldþroti. Helgi segir að komi til gjaldþrots bendi flest til þess að íbúðaréttarhafar á Eir fái ekki neitt.
Helgi segir að um 25% kröfuhafa sé búinn að lýsa kröfum og svipað hlutfall hafi þegar skrifað undir nauðasamninga.
Kristján Sigurðsson, sem gert hefur tilboð í allar eignir Eirar, átti fund með Hagsmunafélagi íbúðarréttarhafa á Eir í gær.
„Við áttum góðan fund með Kristjáni í gær. Stjórninni fannst þetta spennandi hugmyndir sem hann var með og það kom stjórninni á óvart að stjórn Eirar hafi ekki viljað ræða við hann,“ sagði Sigríður Kristinsdóttir hæstaréttarlögmaður, sem situr í stjórn félagsins.