Lögreglan rannsakar eyðingu lyfja

Lyfjum er eytt þegar þau eru t.d. útrunnin eða þegar …
Lyfjum er eytt þegar þau eru t.d. útrunnin eða þegar fólk er hætt að nota þau. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú hvort að lyfjum, sem eiga að fara í eyðingu, sé komið undan og í umferð í fíkniefnaheiminum hér á landi.

Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögreglustjóri, staðfestir í samtali við mbl.is að lögreglan sé að skoða það hvernig staðið sé að eyðingu lyfja hér á landi. Hann bendir á að ýmis lyfseðilsskyld lyf gangi kaupum og sölum á svörtum markaði og hafi ákveðna tengingu við sölu og vörslu á ólöglegum fíkniefnum. Því hafi lögreglan ákveðið að taka eyðingu lyfja til skoðunar.

Að öðru leyti vill hann ekki tjá sig um málið.

Samkvæmt heimildum mbl.is hefur lögreglan að undanförnu lagt hald á umtalsvert magn lyfja í húsleitum og öðrum aðgerðum, m.a. lyf sem ávísað hefur verið á fólk sem nú er látið. Þá hafa einnig fundist útrunnin lyf og lyfjapakkningar þar sem nafn sjúklings kemur hvergi fram.

Fulltrúi Lyfjastofnunar fylgist með brennslu

Lyfjastofnun hefur eftirlit með eyðingu eftirritunarskyldra lyfja hér á landi, þ.e. ávana- og fíknilyfja. Til þess flokks teljast m.a. morfín, svefnlyf, metadón og lyf sem gefin eru við ofvirkni, t.d. rítalín.

Einstaklingar koma lyfjum til eyðingar í apótekum. Apótekin og heilbrigðisstofnanir eiga svo að skila ávana- og fíknilyfjum til Lyfjastofnunar sem sér svo um að koma þeim til eyðingar.  Lyfjastofnun fer með þessi lyf í brennslu til Kölku á Suðurnesjum og eftirlitsmaður er viðstaddur á meðan. Stofnunin greiðir fyrir þá brennslu.

Þegar lögreglan eyðir slíkum lyfjum þá fer eftirlitsmaður frá Lyfjastofnun einnig með á staðinn.

Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, segir erfitt að meta hversu miklu magni lyfja sé eytt á vegum stofnunarinnar á hverju ári. „Þetta er reyndar vigtað á staðnum en mjög oft eru umbúðir utan um lyfin.“

Lyfjastofnun hefur ekki vitneskju um að þessi lyf fari frá lyfjabúðum til neyslu eða í sölu.

Lyfjum er eytt þegar þau eru t.d. útrunnin eða þegar fólk er hætt að nota þau. Þá kemur ákveðinn hluti þeirra til eyðingar úr dánarbúum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert