Þarf að forgangsraða verkefnum

Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að mörg mál bíði hjá embættinu vegna þess að það hafi ekki mannafla til að hefja rannsókn þeirra. Hann vill ekki svara því hvaða vinnu sé búið að leggja í rannsókn á málefnum hjúkrunarheimilisins Eirar.

Jóhann Páll Símonarson sendi fyrir nokkrum dögum kæru til sérstaks saksóknara vegna málefna Eirar. Þrír stjórnarmenn í fyrri stjórn Eirar beindu málefnum Eirar til sérstaks saksóknara í desember 2012. Stjórn Eirar hefur á þessu ári sent fjöldamörg skjöl og mál þangað, m.a. skýrslu Deloitte um rekstur heimilis áður en hann komst í þrot. Málið er því búið að liggja í talsverðan tíma hjá embættinu.

Ólafur sagði að mikið álag væri búið að vera hjá embætti sérstaks saksóknara. „Hér eru gríðarlega mörg mál til meðferðar. Við höfum þurft að setja gríðarlegan kraft í hrunmálin og við stefnum að því að klára þau fyrir lok næsta árs. Á sama tíma er verið að skera niður fjárveitingar til embættisins. Það þýðir bara eitt, við þurfum að forgangsraða málum.“

Ólafur sagði að þegar málum væri forgangsraðað hjá embættinu væri m.a. litið til aldurs málanna og fjárhæða. Hann segir að þegar mál kæmu til embættisins væru þau greind. Framhaldið réðist síðan m.a. af þeim mannafla sem embætti hefði. „Það er töluvert að málum sem eru hér til meðferðar en ganga hægt eða bíða vegna þess að önnur mál eru komin í gang á undan og þeim þarf að ljúka.

Ólafur sagðist engu svara um hvaða vinnu væri búið að leggja í að skoða málefni Eirar. „Ég svara engu um hvaða vinnu er búið að leggja í einstök mál. Þau eru bara til meðferðar. Það eru þau einu svör sem ég get gefið. Það er ekki fyrr en fer að halla að einhverri niðurstöðu sem ég sagt eitthvað annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert