Veðurteppt á hóteli í Jerúsalem

„Við sitjum föst á hóteli í Jerúsalem þar sem allar samgöngur liggja niðri, hluti af bænum hefur verið rafmagnslaus og allir skólar og vegir lokaðir,“ segir Bjarni Freyr Björnsson. Hann er á ferðalagi og hafði ætlað sér að komast til Jórdaníu í dag. Óvíst er að það verði.

„Þeir segja að það hafi ekki snjóað eins mikið hér í sextíu ár. Venjulega snjóar að meðaltali á 5-7 ára fresti og þá verður snjórinn aðeins um 1-2 sentímetra djúpur,“ segir Bjarni.  

Vetrarhörkur eru víðar en í Ísrael. Í Líbanon hefur bæði snjóað og fryst svo aðstæður fjölda flóttamanna sem hefst við í tjöldum hafa versnað enn frekar.

Í frétt AFP-fréttastofunnar segir að snjókoman í Jerúsalem sé sú mesta í áraraðir. Þar segir að borgin sé lömuð vegna snjósins og að herinn hafi m.a. verið kallaður til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert