Daggjöld rót vandans

Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð.
Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð. mbl.is/Golli

Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, segir forsvarsmenn hjúkrunarheimila hafa árum saman sagt að daggjöld til hjúkrunarheimila séu of lág.

Guðjón Magnússon, formaður stjórnar Sunnuhlíðar, sagði í fréttum Morgunblaðsins og mbl.is fyrr í vikunni að daggjöld sem ríkið greiddi með hjúkrunarsjúklingum til hjúkrunarheimila væru of lág til að standa undir rekstri hjúkrunarheimila.

„Daggjöldin lækka ár frá ári því þau halda ekki í við verðlag, þrátt fyrir að öðru sé haldið fram,“ segir Pétur. „Hrafnista stendur vissulega betur sökum stærðarhagkvæmni, en það kemur ekki á óvart að það sé komið í óefni hjá einhverjum af minni hjúkrunarheimilunum.“

Hann segir ríkið enn gera kröfu um sama þjónustustig, án þess að þeim kröfum fylgi fjármunir til að veita hana.

Almennar aðgerðir

Gísli Páll Pálsson, forstjóri hjúkrunarheimilisins Merkur og formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, segir mörg þeirra hjúkrunarheimila sem eigi aðild að samtökunum vera í fjárhagsvandræðum, en þekki ekki til þess að nein þeirra séu í jafnslæmri stöðu og Sunnuhlíð. Hann tekur í sama streng og Pétur hvað varði daggjöldin – þau séu of lág. Hann fagnar því að heilbrigðisráðherra ætli ekki að ráðast í sértækar aðgerðir til að bjarga einstaka hjúkrunarheimilum. Slíkar aðgerðir þurfi að vera almennar og þá með þeim hætti að hækka daggjaldagrunninn.

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Gildis, segir sjóðinn fyrst og fremst horfa til hagsmuna sjóðsfélaga þegar upp komi að launagreiðendur skili ekki iðgjöldum. Megnið af því starfsfólki Sunnuhlíðar sem er í verkalýðsfélaginu Eflingu greiðir í sjóðinn. „Við högum okkar innheimtu í samræmi við lög og reglur og okkar útgangspunktur er að sjóðfélagar tapi ekki réttindunum.“ Hann vildi ekki ræða stöðu Sunnuhlíðar sérstaklega.

300 milljóna skuldir

Stjórn Sunnuhlíðar sendi á miðvikudaginn Kópavogsbæ og ríkinu erindi þess efnis að taki þessir aðilar ekki afstöðu til þess hvor þeirra muni taka yfir rekstur Sunnuhlíðar sjái stjórnin þann einn kost að segja upp starfsfólki.

Sunnuhlíð fékk á fjárlögum síðasta árs um 602 milljónir til rekstrar heimilisins, en í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir að framlög ríkisins hækki í 642 milljónir. Skuldir félagsins nema um 300 milljónum, helmingi þeirra fjárhæðar sem það fékk frá ríkinu í ár. Á heimilinu eru 70 heimilismenn og 140 starfsmenn í 83 stöðugildum að jafnaði á mánuði. Rekstrarvandi heimilisins kom upp á yfirborðið þegar Morgunblaðið hóf að grennslast fyrir um hvers vegna Sunnuhlíð hefði ekki staðið skil á lögbundnum lífeyrissjóðsiðgjöldum.

Ábyrgðin er á hendi ríkisins

Fulltrúar sveitarfélaga eru sammála um að það sé ríkisins að leysa þann vanda sem hjúkrunarheimili stefni í, þar sem ábyrgð á málaflokknum liggi hjá ríkinu. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, segir að Sunnuhlíð hljóti því að snúa sér fyrst til ríkisins. „Vandamálið er í grunninn að daggjöldin eru of lág, þannig að þau duga ekki fyrir rekstrinum, og við sjáum þessi vandamál hrannast upp á fleiri stöðum en þessu hjúkrunarheimili.“

Ármann segir að flestir rekstraraðilar hjúkrunarheimila séu í vandræðum með að láta enda ná saman, en á höfuðborgarsvæðinu séu það langoftast sjálfseignarstofnanir sem sjái um slíkan rekstur. „Þess vegna hlýtur það að vera þannig að þegar vandamál af þessu tagi komi upp að ríkið komi að málum. Sveitarfélagið kemur þar hvergi nærri,“ segir Ármann.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði í Morgunblaðinu í gær, að hann ætti bágt með að trúa því að sveitarfélagið myndi skorast undan þeim skyldum sem leiddu af svona stöðu. Ármann tekur ekki undir þau orð. „Mér finnst mikilvægt að ríkisvaldið geri sér grein fyrir þeim skyldum sem á því hvílir. Það hefur engin áhrif að ætla sér að nálgast sveitarfélagið með því að víkja sér undan ábyrgð.“

Viðræður við ríkið um málið

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, tekur í sama streng og Ármann. Halldór segir að sveitarfélögin hafi verið í viðræðum við ríkið um að sveitarfélög tækju yfir málefni aldraðra. „Við ákváðum að hægja verulega á því, vegna þess að við sjáum það í þessari vinnu að ríkið sem ber ábyrgð á þessum málaflokki stendur sig ekki. Málaflokkurinn er því ekki í nægilega góðu ástandi til þess að sveitarfélögin geti tekið hann yfir,“ segir Halldór.

Halldór segir vandann liggja í því að of algengt sé að daggjöldin frá ríkinu séu ekki nóg. „Þá segir ríkið að þetta sé ekki sitt vandamál og vísar á einhvern annan,“ segir Halldór.

„En auðvitað eru sveitarfélögin alltaf tilbúin að ræða við ríkið um leiðir til að leysa málin, en það verður að vera mjög skýrt í umræðunni að þetta er verkefni ríkisins,“ segir Halldór Halldórsson, í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert