Margir freista gæfunnar í lottói

Það hefur verið röð við Happahúsið í Kringlunni frá opnun …
Það hefur verið röð við Happahúsið í Kringlunni frá opnun í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Lottópotturinn er í sögulegu hámarki og ljóst er að margir ætli að freista gæfunnar að þessu sinni. Mikil röð myndaðist í Happahúsinu í Kringlunni strax í morgun en miðasala er opin til klukkan 18:40 í dag.

Guðlaugur Kristjánsson, eigandi Happahússins, segir stemminguna vera mjög mikla. „Það er búið að vera mjög mikið að gera í dag. Fólk fór að koma strax um tíuleytið í morgun og það er búið að vera röð hjá okkur í allan dag. Þetta er mikið til fólk sem hefur ekki keypt miða í langan tíma og er nú að freista gæfunnar á nýjan leik. Svo eru menn líka að bæta við sig nokkrum auka miðum. Maður vonar bara að vinningurinn rati á marga staði,“ segir Guðlaugur.

Guðlaugur hefur einu sinni áður upplifað annað eins. „Það var mikil stemming fyrir lottói fyrir nokkrum árum þegar potturinn stefndi í áttatíu milljónir en nú er upphæðin miklu hærri og ég er ekki frá því að stemmingin sé mun meiri nú.“

Happahúsið virðist hafa einhvern sérsamning við lottóguðina en samkvæmt Guðlaugi hefur vinningur komið á miða frá þeim um það bil nítíu sinnum. „Já, það hafa margir vinningar komið héðan. Ég held að hlutfallið á landsvísu sé hæst hér.“

Búist er við því að lottóvinningurinn fari yfir 125 milljónir króna. Potturinn er áttfaldur og í sögulegu hámarki. Gera má ráð fyrir að 45% af seldum miðum fari í vinninga og að 219 milljónir renni til vinningshafa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert