Mikil snjókoma er enn í Jerúsalem og hafa allar samgöngur farið úr skorðum. Veðurstofan segir að snjór hafi ekki mælst meiri í borginni frá árinu 1879. Íslendingur sem þar er staddur er veðurtepptur en hann var á leið til Jórdaníu.
„Þar sem allt var lokað í gær urðu margir strandaglópar í borginni,“ segir Bjarni Freyr Björnsson. „Hótelið var fullt og margir misstu af fluginu sínu þar sem þeir komust ekki til Tel Aviv.“
Bjarni segist vona að vegirnir verði opnaðir á morgun svo hann geti haldið ferð sinni áfram. Veðurspáin gerir ráð fyrir því að veðrið gangi niður í dag.
„Margir eru þó glaðir að fá snjó og njóta þess að fara út í snjókast og búa til snjókarla,“ segir Bjarni.
Um 29 þúsund heimili í Ísrael eru án rafmagns vegna veðursins, um 13 þúsund þeirra eru í Jerúsalem
Íbúar um 45 bæja og þorpa í norðurhluta landsins eru innlyksa vegna snjósins. Þá þurfti lögreglan að aðstoða um 200 ökumenn í nótt sem voru fastir í snjónum.
Frétt mbl.is: Veðurteppt á hóteli í Jerúsalem