„Allar þessar framkvæmdir eru á eftir áætlun,“ segir Sigurpáll Grímsson hárskeri en margir kaupmenn og rekstraraðilar eru orðnir langþreyttir á þeim töfum sem verða gjarnan á framkvæmdum í miðborginni. Nú eru framkvæmdir á Hverfisgötu á lokastigi en þær áttu að klárast í lok nóvember.
Þrátt fyrir að allir séu sammála um að framkvæmdirnar séu til mikilla bóta hafa rekstraraðilar á Hverfisgötu kvartað undan áhrifum á viðskipti og Sigurpáll segir alveg ljóst að slíkar framkvæmdir dragi verulega úr flæði viðskiptavina um miðborgina: „Þetta heldur bílum í burtu, mörgum er illa við bíla, en það er fólk í þeim og það kemur ekki.“
Ari Magnússon, kaupmaður í Antikmunum á Klapparstíg, tekur undir þetta: „Ég er svo heppinn að ég leigi ekki húsnæðið því annars væri ég búinn að loka hérna.“ Hann segir að 40-50% af veltunni hverfi þegar Klapparstígnum sé lokað sem hafi verið raunin í samtals 15 mánuði á síðastliðnum tveimur árum.