Færeyingar höfnuðu tilboði ESB

Frá Þórshöfn í Færeyjum.
Frá Þórshöfn í Færeyjum. mbl.is

Færeysk stjórnvöld hafa hafnað tilboði sem Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, lagði fram í síðustu viku til lausnar makríldeilunni í heimsókn sinni til Færeyja. Fram kemur á fréttavefnum Portal.fo að greint hafi verið frá því í fjölmiðlum að Damanaki hafi boðið Færeyingum 11,9% makrílkvótans sem er það sama og hún mun hafa boðið íslenskum stjórnvöldum.

Fram kemur á fréttavefnum að Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja, hafi krafist þess að Færeyingar fengju stærri hlutdeild en Íslendingar. Hann segir í svarbréfi til Damanaki sem sent var í gærkvöldi samkvæmt fréttinni að hann geti ekki samþykkt lausn í makríldeilunni sem þýði að Færeyjar fái sömu framtíðarhlutdeild og Ísland. Þá ítrekar hann fyrri kröfu um að Færeyingar fái 15% makrílkvótans.

Þess má geta að Færeyingar hafa áður hafnað því að fá sömu hlutdeild og Íslendingar. Þá hermdu fréttir í haust að Evrópusambandið ætlaði að bjóða Færeyingum 12% makrílkvótans en Íslendingum 11,9%. Séu fréttir réttar af tilboði Damanakis núna er ljóst að það er minna en það sem rætt var um í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert